Aflát sérgæsku

Framundan hljóta að vera mestu umbrotatímar í sögu þjóðarinnar,slíkir tímar að hlálegt væri að tala um að elstu menn myndu ekki annað eins. Ofan á allt er svo efnahagslegt þorskastríð við Breta,sem virðast vera að renna jafnharkalega á rassinn og við. Við megum ekki gleyma því að þeir þurfa að huga að fleirum og fleiru  en við og eru nær hringiðu alþjóðakrísunnar en við. Áður var deilt um hver mætti veiða hvar og hvort við gætum notið auðlindarinnar einir og sér eða með þeim og öðrum.

Nú er um fjárhagslegt sjálfstæði þjóðarinnar að tefla. Munum það að hér eigum við yfirdrifið af eignum og verðmætum og gætum lifað góðu lífi sem eyland í víðum skilningi. Vantar í raun fátt annnað en eldsneyti en auðvitað vonar maður að viðskipti við útlönd vegna gjaldeyrisskorts leggist ekki af. En ef við getum ekki látið af sérgæskunni,sem kom okkur ásamt ýmsu öðru á kaldan klaka, og sem lýsti sér hvað mest í launaofmati margra starfsgreina, en hélt þó samtímis óráðssíunni og ofþenslunni gangandi undanfarin ár,er voðinn vís.

 En lausnarorðið hraut af vörum Geirs Haarde og er einfalt: Framleiða,framleiða.


Ábyrgð sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu

Þegar bátur steytir á skeri eða skip strandar er leitað skýringa og sjóslysanefnd kölluð til . Farið er ítarlega yfir rás atburða og menn dregnir til ábyrgðar ef þurfa þykir. Sigli þjóðarskútan í strand segja

segja áhafnarmeðlimir, stjórnmálamenn; nú þurfum við að snúa bökum saman og ekki horfa til baka.

Ábyrgðin ? Jú þeir gætu átt á hættu að missa starfið sitt eftir næstu kosningar ef kjósendum sýndist svo. Vegna ofurtrúar almennings á frjálsan markað er þeim líka flest fyrirgefið og alvarlegustu sökinni skellt á heimsviðskiptin,sem nú um stundir er vissulega rétt. Lánsfé í gjaldeyri varð skyndilega uppurið. Stórar bankastofnanir í útlöndum lögðust á hliðina og upphaf þess fárviðris rakið til undirmálslána til íbúðakaupa í Bandaríkjunum.

Hér virtist fyrir nokkrum  misserum allt vera fljótandi í peningum, sem það vissulega var meðan aðgangur peningastofnanna að erlendu fjármagni til næstum hverskonar framkvæmda eða kaupa á fyrirtækjum var óheftur.

Lánshæfismat bankanna, með öðrum orðum traust til þeirra, var mjög gott.

En húsnæðislán til langs tíma, 25-40 ára hlýtur að vera áhættusöm atvinnugrein þar sem hún hlýtur að byggjast á endurfjármögnun erlendis frá og það áttu kannski bankamenn að vita.

 En nú loksins að þætti sveitarfélaganna hér á höfuðborgarsvæðinu. Hér ríkti mikil framkvæmdagleði og mikil samkeppni um nýja íbúa þeirra á milli. Hér áður fyrr var visst jafnvægi milli mannafla í byggingariðnaði og eftirspurnar eftir nýju húsnæði af öllu tagi. En með frjálsu flæði vinnuafls frá fátækari löndu ESB birtust hér skyndilega röskir menn,sem einnig voru tilbúnir að vinna á töxtum sem Íslendingar höfðu ekki litið við lengi. Og þá tók nú framkvæmdagleðin við sér fyrir alvöru.

 En hver er svo niðurstaðan ? Jú,það er algjörlega nauðsynlegt að gera áætlanir sameiginlega fyrir þörfina á höfuðborgarsvæðinu ,bæði fyrir atvinnuhúsnæði,verslunarhúsnæði og ekki síst íbúðarhúsnæði.

Það er algjörlega óviðunandi að "markaðurinn ráði þessu "vegna yfirdrifins lóðaframboðs og það séu bankastjórarnir sem stoppi þetta þegar í óefni og fjöldagjaldþrot er komið með: " úps, því miður,engir peningar til."

Ekkert er eins kostnaðar- og áhættusamt og að byggja upp heilu íbúðarhverfin með allri þjónustu af hálfu sveitarfélaganna,sérstaklega ef ekki finnast kaupendur að eignunum. Ef ekki er hægt að gera þannig sameiginlegar og ábyrgar áætlanir um byggingar og lóðaúthlutanir á höfuðborgarsvæðinu nema með sameiningu sveitarfélaganna, þá verður sú sameining að eiga sér stað. 

 Með baráttukveðjum.


Í karganum

Allir golfspilarar þekkja tilfinninguna að slá kúluna út í rough-ið eða kargann á góðri íslensku. Þeir vita sem er,þegar horft er á eftir henni þangað, að þetta er ávísun á vandræði. Strax í næsta höggi

ætlar golfleikarinn að bæta fyrir þetta og komast inná braut. Oftast verður það ekki svo heldur verður hann áfram í karganum og kemst svo loksins frá brautinni á allt of mörgum skollum !

Borgarstjórnarflokkur sjálfstæðisflokksins er í karga,ef ekki í argakarga síðan hann sló feilhöggið fræga í REI málinu. Og aðfengni borgarstjórinn með atkvæðin 6000 á bak við sig, man ekki töluna nákvæmlega þar eð langt er síðan Ólafur F nefndi hana, heldur honum í gíslingu í ófærunni á þann

máta að almennir kjósendur vita ekki sitt rjúkandi ráð. Kannski vildi á að giska fjórðungur kjósanda "hans", því að auðvitað var það listinn sem atkvæðin fékk, sem frekar vildi að haldið yrði í gömlu húsin við Laugaveg en að eðlileg uppbygging, sem búið var að samþykkja deiliskipulag af yrði framkvæmd. Það eru spennandi  og viðsjárverðir  tímar framundan í borgarmálum og Sjálfstæðisflokkurinn er ekki öfundsverður af þeirri stöðu,sem hann er búinn að koma sér í. Líklegast kemst hann ekki út úr þessu kargaþýfi og inná beina braut fyrr en eftir þarnæstu borgarstjórnarkosningar.

 


Evrovision, frábær skemmtun

Þeir stóðu sig vel Serbarnir. Að mínu mati var umgjörð keppninnar í Belgrad eins góð og hugsast gat. Regína og Friðrik Ómar og þið öll, frábær frammistaða!

En ekki geta allir unnið og auðvitað er það lenska að atkvæðin fari á milli vinaþjóða sem líka geta verið með svipaða tónlistarhefð og smekk. Verðum við ekki móðguð ef við fáum ekki atkvæði frá Norðurlandaþjóðunum og sama gildir um þær. En besta lausnin fyrir alla væri að breyta reglunum

aðeins og þá yrði minna um  þessi nágrannaatkvæði. Sem sagt; Nöfn þriggja eða fimm efstu þjóðanna yrðu sett í pott og sigurvegarinn yrði dreginn þar upp úr. Tvöföld eftirvænting og minna svekkelsi. Komið þessu áleiðis !!


Verðbólga,velferð og frjáls markaður

Já,verðbólgan fer vaxandi,gengið rokkar til og frá og dýrtíð vex. Seðlabankinn sendir frá sér gleðitíðindi um að stýrivextir haldist samt óbreyttir. Hvílíkt ! Hefði nú ekki mátt láta almenning í landinu njóta vafans eins og  gjarnan er sagt þegar náttúruna ber á góma og bara prufa að lækka þá og sjá hvort virkilega allt fari á verri veg.

Nei, hæstu vexti í heimi skulum við áfram hafa.  Undirritaður nær varla leikmannstitli í efnahagsmálum en vogar sér samt að halda því fram að undirrót verðbólgunnar séu allt of há laun

margra stétta í landinu. Það hljóta að vera takmörk fyrir því hvað greiða má fyrir þjónustu  og hversu há meðallaun eða hærri mega vera. Þau hljóta að taka mið af þjóðarframleiðslu og ef þau fara  langt fram úr henni hlýtur verðbólga að fara á stjá sem nú og skakka leikinn, langflestum  til óþurftar.Þetta  ástand bitnar mest á þeim ,sem hafa tekjur neðan ákveðinna marka en eru samt stór jafnvel stærri hluti þjóðarinnar. Við höfum á undanförnum árum séð dæmi um ofurlaun ýmissa stétta, nú síðast í vikunni af harðduglegum lækni sem þjónustaði tæpa 60 skjólstæðinga samdægurs. Ég þori ekki að endurtaka hvað hann bar úr býtum en þetta var forsíðufrétt. Undirritaður hefur sagt það áður og segir enn; Það má ekki gefa græðginni lausan tauminn í skjóli frjáls markaðar. Jöfnuður og velferð sem flestir vilja búa við er í húfi.  Eins og ástandið er nú verður að setja á tvö eða fleiri skattþrep til að stemma stigu við óhóflegum launum. Það getur ríkisstjórnin gert í stað þess að einblína til Seðlabankans um að leysa vandann, nema að það sé þannig að sá sem í dag stýrir stjórn sé ekki búinn að venja sig af því að þar sitji yfirboðari hans og að sá leysi mál.

 


Hvað er til bragðs ?

Við erum stödd í miðri lendingu. Álitsgjafa greinir á um hvurs lags hún sé. Löngu fyrir lendingu var okkur tjáð að hún yrði mjúk og ekkert að óttast. Að vísu spurðu margir sig hvort yfirleitt þyrfti nokkuð að lenda. Væri bara ekki best að vera ofar skýjum og svífa áfram á þeim rósrauðum. Á stöðugri uppleið á öllum samanburðartölum og gröfum. Við náðum því marki að verða heimsins hamingjusamasta þjóð og gott ef ekki var ,komumst upp fyrir Norðmenn á lífskjaralistanum þar sem við höfum nokkuð lengi setið í efstu sætum. Jú, jú, allt sem fer upp kemur niður aftur og því er samanburður við flugvélar nærtækur. Og nú er komið að áhöfninni sem fólkið kaus yfir sig til að stýra skútunni inn til lendingar, samlíking sem gjarnan var notuð en hefur nú yfirfærst á flugvélar, sem fólki finnst nærtækara að  nota til samlíkingar. Við erum sem sagt í vályndum veðrum óðaverðbólgu,dýrtíðar og gengishraps og mjög svo óhagstæðum viðskiptajöfnuði. En við verðum að lenda,verðum að koma okkur niður á jörðina.

En sleppum nú samlíkingum þótt skemmtilegar séu og tölum tæpitungulaust. Eitt þurfa ráðamenn að skilja. Það eru ekki þeir,sem eru að taka lánin á heimsins hæstu vöxtum sem eru valdir að viðskiptahallanum,þau eru ekki að spandýra þeim lánum í óþarfa. Kannski tóku margir sér fullstór lán þegar þau buðust og voru heldur flottir á því. Ef Íslendingar eignast peninga, eða taka þá að láni, þá eyða þeir þeim. Í handónýt hlutabréf ef þeim dettur ekki eitthvað annað i hug. Í þessu þjóðfélagi eru mjög margir sem hafa það mjög gott og hafa það eflaust áfram, en það eru líka margir sem ekki geta fótað sig í þessu landi dýrtiðar og misskiptingar. Og þá á ég fyrst og fremst við hvað hlýtur að vera erfitt fyrir unga fólkið að koma sér fyrir, kaupa sér húsnæði og þjónustu nauðsynjar sem orðnar eru allt of dýrar. Þjóðarsátt hlýtur að snúast um að gíra niður kaupgjald og verðlag. Ef það tekst ekki verður að fjölga skattþrepum. Fjármagnstekjuskattur verður líka að vera þrepaskiptur.  Auk þess verður bankakerfið, lífeyrissjóðirnir og þeir sem vasast í útrásarverkefnum, að tileinka sér sem móttó að "það sem græðist á Íslandi verður kyrrt á Íslandi" Góðir samfarþegar, við fljúgum eða siglum inn til lendingar.Við getum víst ekki treyst á aðra en áhöfnina sem við kusum  að lenda farsællega,en sem betur fer líka okkur sjálf þeim til leiðsagnar.

 

 


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband