26.10.2011 | 15:20
Hagstjórn á tímamótum
Þeir sem vilja halda í verðtryggingu eða vilja taka upp annan gjaldmiðil í stað krónu eru gjarna þeir sem bera hag fjármagnseigenda og lífeyrissjóða fyrir brjósti. Forystumenn margir hverjir í verkalýðsfélögum draga því frekar tauma lífeyrissjóða en almennra launþega. Þeir ásamt mörgum stjórnmálamönnum sem eru sama sinnis eru einfaldlega að segja; það er ekki hægt að reka þetta þjóðfélag á skynsamlegum nótum með stöðugleika að leiðarljósi og því verður að viðhalda verðtryggingu með gífurlega alvarlegum afleiðingum fyrir almenning. Það kom best í ljós á undanförnum þremur árum.
Stjórnmálamenn jafnt í lands- sem byggðapólitík lofa kjósendum öllu fögru fyrir kosningar til að laða að sér fylgi þótt engin sé innistæða fyrir loforðunum. Verkalýðsleiðtogar og hagsmunafélög fara af stað árvisst til að knýja á um betri laun fyrir sína félagsmenn,enda eru þeir kosnir út á það. Þeir vita sem er að þetta er ávísun á verðbólgu og ekki er innistæða fyrir hækkunum en það er skárra að ávísa á verðryggða okurvexti en að sitja auðum höndum. Svona gengur þessi skollaleikur áfram, áratugum saman og jú, "þetta er vinnan þeirra".
Hruninu 2008 má líkja við manngerðan jarðskjálfta sem kemur þó ekki nema með áratuga hléum en hefur alvarlegar afleiðingar fyrir okkur landsmenn. Mest bitnaði það á þeim sem töpuðu eignum sínum, húsnæði og atvinnu. Ekki er víst að landsmenn geti tekið á móti öðrum slíkum, jafnvel ekki "eftirskjálfta" 2008 hrunsins. Þess vegna er þörf á miklum hagstjórnarlegum framförum og lagfæringum á peningastefnu en ekki áframhaldandi hringavitleysu í skjóli verðtryggingar. Minni aftur á það á það, að verðtrygging lána er séríslenskt fyrirbæri tilkomin vegna viðvarandi lélegrar hagstjórnar sem getur á stundum líka stafað af ófyrirséðum ytri áföllum.
Varla er hægt að finna kauðslegri skammstöfun en RÚV og alls ekki yfir starfsemi sem er jafn mikilvægt að hægt sé að tengja við landið, sérstaklega í útlöndum. en þangað hefur stofnunin oft borið hróður okkar með góðu sjónvarpsefni. "Fyrir hvurn skollann stendur þetta RÚV"? , spyrja sig efalaust margir í lok íslensks sjónvarpsefnis." Er rússneskur húmor virkilega svona" ! ? Dettur ekki flestum Rússland í hug vegna R-sins í skammstöfununni ? Eða að efnið sé fengið frá öðru landi með R sem upphafsstaf.
Strax í upphafi líkaði mér skammstöfunin illa. V í enda orða eða í enda skammstafanna þekkist varla. Vaffið er mjög erfitt í framburði RÚV. Svo sem í lagi í skammstöfunni ÍAV þar sem það er borið fram sem vaff. Útlendingur gæti spurt; "What does RÚV stand for "? Uuh, State..out ..throw.., or cast ! " Okey" ! Útvarp Reykjavík var krúttlegt nafn,sérstaklega þegar Jón Múli og aðrir útvarpsþulir hans tíma lásu upp nafnið. Síðan þurfti endilega að kenna það við ríkið til aðgreiningar frá öðrum stöðvum ,en það vildi svo undarlega til að þær voru alls ekki til staðar. Og síðan voru menn ekki frumlegri en svo að gera skammstöfun úr þessu orðskrípi; Ríkis-út-varpið, RÚV. Helst er hægt að bera það fram sem RÚF og þá með skýru F- hljóði. Á ensku bréfsefni stendur efalaust: The Icelandic National Broadcasting Service og hljómar vel og segir það sem segja þarf. Kannski er þó orðinu National ofaukið. Í guðana bænum komið með skammstöfun, sem hægt er að tengja landinu með Í en ekki ríkinu með R. Íslenska ríkissjónvarpið eða ÍRS væri svo sem ágætt nafn og útvarpið ( hljóðvarpið ) væri svo undirnafn, RÚV ( RHV ) með Rás 1 og Rás 2
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 20:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
13.9.2011 | 14:50
"Þegar traktorinn stöðvast...
...er úti um matvælaöryggið",sagði prófessorinn og taldi sig hafa slegið öll vopn úr höndum andmælandans. Hvílík öfugmæli. Langt inni í óljósri framtíð, þegar olía jarðar verður uppurin og ef flug- og skipaferðir myndu afleggjast af þeim ástæðum, engin annar orkugjafi tiltækur í hennar stað, þá fyrst er virkileg þörf fyrir að hafa öflugan landbúnað til að tryggja fæðuöryggi landsmanna. En það er óralangt í það að sú sýn rætist ef hún gerir það einhverntíma. Aðrir orkugjafar verða áreiðanlega komnir í stað olíu.
En umræðan um landbúnaðarstefnu ESB,sem nú er ofarlega á baugi í samningaviðræðum og aðildarumsókn við sambandið, hátt verð innlendra afurða, óheftan innflutning vara erlendis frá, hún snýst hvorki um fæðuöryggið né hversu lengi olían endist. Hún snýst frekar um eftirfarandi að mínu mati.
Höfum við nægan gjaldeyrisforða til að kaupa langstærstan hluta matvæla erlendis frá og hefur sú áætlaða upphæð einhvern tíma verið birt?
Verða þau matvæli til lengri tíma litið ódýrari ? Ekki styttast flutningsleiðir til landsins við inngöngu í ESB.
Höfum við efni á að leggja af gjaldeyrisskapandi undirstöðuatvinnuvegi með þúsundum starfa í úrvinnslugreinum ?
Höfum við hag af því að minnka byggð í landinu sem er lika vaxtarbroddurinn í sívaxandi ferðaþjónustu ?
Við viljum gjarnan telja okkur til Evrópuþjóða, enda erum við það, en landfræðilega erum við það tæpast. Það er eðlilegt að meginlandsþjóðir álfunnar stefni að sem mestri sameiningu með sameiginlegri mynt og stjórnskipan. Þeirra landamæri eru oftast huglæg og sjást helst á kortum. Okkar landamæri eru áþreifanleg og mörghundruð mílna breið.
8.9.2011 | 16:37
Flestu er nú snúið við
Var nokkuð athugavert við að leitað væri annarra orkukaupenda. Það var ekki búið að útvega nægilega orku til álversins auk þess sem orkuflutningur þangað átti langt í land. Hinsvegar fóru menn á stað með byggingu álvers af landlægri bjartsýni og í bulli þess tíma. Má allt í pólitískum tilgangi ?
Bloggað vegna forsíðufréttar Mbl. í dag og viðbragða stjórnarandstöðuþingmanna.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 18:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
1.9.2011 | 14:07
Er einhver leið fær til að trappa niður verðtrygginguna ?
Allt frá því að Íslendingar komust til bjargálna um miðja síðustu öld hefur hagstjórn ekki verið okkar sterkasta hlið. Kannski ekki von þar sem þjóðarbúskapurinn hefur gengið í rykkjum og þá í takt við aflabrögð til sjávar lengst af. Helsta ráðið var að fella gengið til að halda sjávarútveginum gangandi. Það varð síðan ávísun á minnkandi kaupmátt og aukna verðbólgu. Þegar verst lét fór hún yfir hundrað prósentin. Fólk hafði þó gott ráð við henni og gat fjárfest í húsnæði sem hækkaði í verði. Langflestir höfðu ráð á því að eignast þak yfir höfuðið og gátu jafnframt lifað þokkalegu lífi.
En þá heyrðust ramakvein úr horni. Sparifé sem þá var gjarnan geymt á bankabókum var við það að brenna upp. Þrátt fyrir það og þrátt fyrir að bankar þyrftu að afskrifa háar upphæðir hjá fyrirtækjum, sem komust ekki af í ólgusjó slæmrar hagstjórnar, var það óþekkt fyrirbæri að fjármálafyrirtæki yrðu gjaldþrota. Sem afleiðing af þessu varð verðtryggingin til. Smám saman varð það til þess að fátt stóð nú í veginum fyrir fjármálastofnunum, sem höfðu allar færst yfir til einkageirans og hrunadansinn hófst. Enda er verðbólga í bland við verðtryggingu einfaldlega himnasending fyrir þær stofnanir. Þar til allt fór yfir um á þeim bæ og landsmenn sitja enn uppi með stórfellt tjón.
Upptaka Evru er orðið að trúarbrögðum sem varla er hægt að ræða á rökrænan hátt. Hvorki hún né aðrar myntir eru heldur innan seilingar og hvað er þá til ráða ? Finnum ásættanlegan vísitölugrunn neysluverðs og höldum verðbólgunni í skefjum sem mest við megum. Greiðum sambærilega grunnvexti og aðrar þjóðir og byrjum á því að verðtryggja eingöngu hluta af höfuðstóli lána . Förum síðan frá 100 % verðtryggðu hlutfalli og niður í núll á t.d. þremur árum.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 16:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
17.8.2011 | 12:57
Fangelsið á Hólmsheiði
Fyrir aðeins nokkrum árum var gerð kostnaðarsöm úttekt á því hvort ekki væri ráð að flytja Reykjavíkurflugvöll, ef ekki út á Löngusker, þá upp á Hólmsheiði. Frá því var sem betur fer horfið, a.m.k. þar til kosningaskjálfti gerir vart við sig næst. En ákvörðun um að byggja nýtt og rammgert fangelsi getur varla beðið fram yfir helgi skilst mér. Einungis á eftir að ákveða hvort þetta verður ríkis- eða einkaframkvæmd. Hvort peningar eru til fyrir framkvæmdinni virðist aukaatriði. Tölur um að 350 manns bíði afplánunnar eru sláandi og þó hefur "Sérstakur" ekki látið til sín taka í þá veru að bæta við listann. Nú verður að gera mikinn mun á hættulegum glæpamönnum og hinum sem ekki eru hættulegir umhverfi sínu. Því spyr ég; Þurfum við virkilega á öðru rammgerðu öryggisfangelsi að halda en nú nær Höfuðborgarsvæðinu? Þurfum við ekki frekar stærra afplánunarfangelsi í líkingu við Kvíabryggju en jafnframt lítið gæsluvarðhaldsfangelsi á Höfuðborgarsvæðinu?
Margar álitlegar tillögur hafa komið fram um nýtingu húsnæðis sem ríkið á og stendur nú ónotað. Þarna liggur efinn, sem taka verður á, og áður en endanleg ákvörðun verður tekin um næstu helgi.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
20.7.2011 | 12:56
Verðtrygging og vísitölur
Nú stendur yfir undirskriftasöfnun á vegum Hagsmunasamtaka heimilanna gegn verðtryggingu lána og er það vel. Menn segja gjarnan að verðtryggingin sé ekki vandamálið heldur verðbólgan. Og til að leysa vandann þurfum við að skipta út krónunni fyrir aðra stærri og betri mynt. Til þess þurfum við svo að fara langa og erfiða vegferð inn í ESB en gætum alveg eins tekið til í eigin ranni.
Mér vitanlega hefur grunnur vísitölunnar og þar af leiðandi mæling verðbólgunar lítið sem ekkert breyst frá upphafi. Ef við getum ekki lagt verðtrygginguna af í fljótheitum getum við þó leiðrétt grunninn vísitölunnar. Vægi hluta skiptir mestu og nú er verið að tilkynna að byggingavísitala hafi hækkað um 8.4 % það sem af er ári og 0.8 seinasta mánuð. Þetta vegur þungt í vísitölunni og hækkar þar af leiðandi lán okkar landsmanna. En... það ríkir stórakreppa í byggingariðnaði og lítið sem ekkert er byggt. Hversvegna eiga örfá hús í byggingu að breyta lánum landsmanna og iðnaðurinn hefur dregist saman um næstum 100 % síðustu misseri? Mælingin verður að endurspegla eftirspurnina. Það er vandaverk að hafa mælistikuna réttláta en ef það tekst ekki verður að leggja verðtrygginguna af.
19.7.2011 | 10:28
Tökum umbrotin og breytingarnar í Mýrdalsjökli mjög alvarlega.
Íbúar landsins hafa verið mjög heppnir hvað varðar slys og dauðsföll af vegna nattúruhamfara af völdum eldgosa og flóða tengdum þeim. En getum við treyst áfram á heppnina þegar Katla sjálf virðist vera að rumska? Enginn sá fyrirfram með vissu eldgosið í Eyjafjallajökli og það gífurlega flóð sem sem á undan kom né gosið og flóðið í vstanverðum Eyjafjallajökli. Ekki heldur fimm metra háa flóðbylgju sem kom um nótt og svifti af brúnni á Múlakvísl. Heppni var að þar var enginn á ferð.
Ekki viljum við hræða fólk að ástæðulausu en við verðum að hafa varan á þegar umferð á þessum árstíma er mikil um Mýrdalssand en þar er flóðhættan mest ef Katla fer af stað af alvöru. Best væri auðvitað að vísindamenn gætu sagt fyrir um að flóðgos væri yfirvofandi á næstu dögum og þá yrði að loka veginum og setja af stað neyðaráætlun almannavarna. Varla getum við talið okkur trú um að allt hljóti að bjargast, ( eins og venjulega ! ) þegar stærstu náttúruhamfarir í næstum 100 ár gætu verið yfirvofandi.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
27.6.2011 | 13:18
Friðun fugla
Undanfarnir mánuðir hafa verið með eindæmum kaldir,sérstaklega á Norðuraustur- og Austurlandi.Bændur hafa átt í vandræðum með hagabeit ,kal er í túnum og ennþá er snjór á svæðum sem á þessum tíma eru beitilönd fyrir sauðfé. Það leitar því aftur til byggða. Áhrif eldgosanna tveggja síðustu ára hafa á nærliggjandi svæðum verið erfið bæði mönnum og skepnum.
En kuldi þessa árs sem og eldgosin hafa harðast komið niður á hinum vængjuðum vinum okkar, fuglunum. Ekki einungis hefur varp misfarist vegna kulda, heldur hafa fuglar sem lifa á fæðu úr sjó eins og lundi og krían hreinlega hætt að verpa á stærstum hluta landsins vegna hruns í sandsílastofninum.Samkvæmt fréttum hefur rjúpunni fækkað um helming. Í tvö ár í ofan á lag hafa farfuglar þurft að fljúga inn í svart öskuský þegar þeir loks náðu landi eftir erfitt ferðalag.
Fólk hefur gjarnan gleymt sér í náttúruverndinni og mest hugsað um " dauða náttúru " svo sem hraun, fossa og fjöll en lítið hugsað um þá lifandi, sem er þó miklu verðmætari. Það má ekki kenna refnum eða minki eingöngu um fækkun fugla. Við þessar erfiðu kringumstæður verður skilyrðislaust að friða alla fugla í nokkur ár og skotglaðir veiðimenn verða að hemja vísifingurinn þann tíma. Einnig má lundaháfurinn liggja jafnlengi á hillunni við hlið haglabyssunnar.
Ísland mætti mín vegna verða friðland fugla um langa tíð og sú framkvæmd gæti virkilega sett okkur á stall í dýravernd ( fuglavernd ) Jafnvel gæti það gefið okkur aukin arð í ferðaþjónustu þar sem fuglaskoðunarfólk myndi heimsækja okkur í ennþá meira mæli.
30.4.2011 | 16:42
Ósanngjarnir bensínskattar og róttækar tillögur til úrbóta
Nú þegar skattlagning á bifreiðaeldsneyti er í hæstum hæðum, enda beintengd við erlent innkaupsverð sem fer sífellt hækkandi, er það minnsta sem hægt er að fara fram á, að skattlagningin sé sanngjörn. Ég vil benda á helstu þversögnina og kem með hugmynd til úrbóta.
Á þessum harða vetri á heimsvísu, og á þessu svala og leiðinlega vori suðvestanlands, hafa þeir sem lögðu hvað mestan trúnað á, að hin ósannaða kenning um að hlýnun jarðar stafaði einkum og sér í lagi af CO2 mengun og mest af útblæstri bifreiða látið lítið á sér kræla. En á undanförnum missurum hefur þeim sem tök höfðu á að nýta aðra orkugjafa en olíu á bifreiðar sínar verið hampað sem hinum sönnum bjargvættum landsins, ef ekki heimsins alls og verið verðlaunaðir með því að vera undanþegnir öllum beinum eldsneytissköttum til ríkisins. Þar af leiðandi einnig til samfélagsins. Eigendur bensínhákanna hafa hinsvegar verið skattaðir undir drep og ekkert skrítið við það að þeir horfi í peninginn sem þeir eyða í bensín, hugi að sparibauk á hjólum og allra helst knúnum af innlendu lífrænu eldsneyti. Svo mikil er ákefðin við að bjarga heiminum frá hlýnun hér úti á miðju Atlantshafi, þar sem vindar blása hvað mest og loftið er tærast,að liggur við að það eigi að skattleggja okkur til þess að nota reiðhjól eingöngu og almenningssamgöngur vegna þess að við mættum alls ekki hafa efni á því að reka einkabíl.
Fyrrverandi samgönguráðherra,sem ýmislegt hefur á samviskunni í samgöngumálum, fannst sem hefði hann himin höndum tekið þegar glitti í það að hægt væri að mæla veganotkun bifreiða með gervitunglum. Skattleggja síðan eftir því og kosta þannig líka nýframkvæmdir vega fyrir þurrausinn ríkissjóð. Það mátti lesa skynsemiskorn hjá honum á milli línanna að þannig mætti skattleggja þá sem notuðu vegakerfið en borguðu enga bensínskatta þar sem þeir keyrðu um á metan- rafmagns-etanol- og hvað- það nú heitir- knúðum bílum.
Hér vil ég nefna dæmi um hvað eigendur þessara bíla spara sér og samsvarandi tekjur sem ríkið verður af til vegamála og annara hluta sem vegaféð hefur lengi borið kostnað af.
Tökum meðalbíl sem eyðir tólf lítrum á 100 km. og ekinn er 15.000 km á ári . Eigandi hans borgar 120 kr af hverjum lítra í skatt við bensíndæluna. Litlar 216.000 kr á ári og til þess þarf hann að vinna sér inn fyrir ca 350 þús fyrir skatta. Þetta eru verðlaun metanmannsins sem er í óða önn að bjarga heiminum frá hlýnuninni á heimsvísu.
Hugmynd mín til jöfnunar meðan á þessum umskiptum stendur,og ekki misskilja mig, það verður mikill gleðidagur þegar bíla- og skipaflotinn verður knúinn áfram af innlendu eldsneyti sem ekki mengar umhverfið, sparar gjaldeyri og við verðum óháð heimsmarkaðsverði á olíu sem virðist fara hækkandi í fyrirsjáanlegri framtíð.
Eitt af því fáa sem maður hefur lært að treysta um ævina eru hraðamælar og kílómetrateljarar bifreiða. Skattleggjum eftir eknum kílómetrum. Áætlum ársakstur og látum tékka hann af við árlega skoðun bifreiða.
Of langt mál er að útskýra þetta í smáatriðum en hugmyndinni er hér komið á framfæri.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 20:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)