21.12.2010 | 19:59
Ofurgjöld á bifreiðaeigendur
Fróðleg og vel unnin samantekt fréttamanns Stöðvar 2 í kvöld á rekstrarkostnaði bifreiðareiganda á Selfossi annars vegar og tekjum ríkisins af bifreiðum landsmanna hins vegar var sláandi. Nær væri að hrunráðherrann sem er áfram í hlutverki samgönguráðherra þótt Ögmundur hafi tekið við af honum, slakaði nú aðeins á.
Hann og forverar hans eyddu á báðar hendur og verður hann því nú að að slá lán fyrir vegaframkvæmdum og ætlar sér að innheimta síðar kostnaðinn með vegtollum. Augljóst er að tekjur ríkisins af umferðinni eru miklu meiri en vegaféð. Þess vegna ætti að láta þær duga, lækka heldur bensínskatta og aðra bifreiðaskatta og láta vegtolla lönd og leið. Gleymum ekki baráttunni gegn þessum viðbótarsköttum.
13.12.2010 | 13:12
Vegagerð, vegtollar og áætlanir sem engan vegin ganga upp
Í útlandinu þar sem vegtollar eru við hafðir er alltaf unnt að fara aðrar leiðir en þær sem greiða þarf toll af en eru vandaðri og spara tíma. Nú sjá menn að dýr Vaðlaheiðargöng standa vart undir sér sem einkaframkvæmd ef Víkurskarði verði ekki lokað. Hér fyrir sunnan verður ekki þverfótað fyrir tollhliðum í framtíðinni ætli menn sér til eða frá höfuðborgarsvæðinu. Menn fara óhikað út í rándýrar vegaframkvæmdir eins og Suðurstrandaveg sem virðist lengi hafa verið gæluverkefni þingmanna Suðurlands. Sá hluti þess vegar sem kominn er virðist mér vera með alltof háan gæðastuðul, sennilega hærri en stærsti hluti hringvegarins auk þess sem hann á að liggja sunnan Hlíðarvatns, meðfram sjónum, sem mér finnst vera óhæfa. Gamli vegurinn liggur með hlíðinni og óspart notaður af þeim sem þar vilja njóta útiveru. Þessi vegur styttir leiðina milli Grindavíkur og Þorlákshafnar og nýtist íbúum þeirra bæja ágætlega auk annarra en mátt hefði gera hann á miklu hagkæmari máta með enduruppbyggingu gamla vegarins og leggja hann slitlagi.
Og nú á að fjármagna dýrar vegaframkvæmdir til Selfoss, 2+2 vegur þegar 2 + 1 vegur ætti ágætlega að duga, með vegtollum. Ofan á allt saman á að auka kolefnisgjald og hækka vörugjald á bíla ef þeir brenna eldsneyti að ráði. Hins vegar fá vetnisbílar,metanol og rafbílar eiginlega"allt frítt" eins og þeir þurfi annars ekkert að borga fyrir afnot af vegakerfinu nema ef þeir hætta sér á tolluðu vegina. Ég sé fyrir mér að það verði búið að loka nýbyggðum og rándýrum Suðurstrandarvegi ( sbr. Víkurskarðið ) til að þeir, sem vilja komast hjá vegtolli, sleppi ekki þá leiðina þ.e. gömlu Krísuvíkurleiðina !. Ef þá á annað borð einhverjir hafa efni á að ferðast um landið á einkabílum á komandi árum. Heyrðu Kristján og aðrir,er ekki komið nóg ?
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
8.12.2010 | 12:10
Ekki er öll vitleysan eins og því á Íbúðalánasjóður í kröggum.
Atburðarás síðustu ára var á þann veg að nú á Íbúðalánasjóður í basli og það er bara mjög eðlilegt og ekki honum einum um að kenna. Hér skulu ástæður raktar; Þegar þjóðin fór á yfirsnúning og allir mögulegir vegir sýndust henni færir fór atburðarás af stað og endaði í fasteignabólu sem sprakk af miklum krafti, eiginlega í andlitið á okkur. Inn í landið streymdi erlent fjármagn á ódýrum vöxtum sem síðan var lánað út á hærri vöxtum auk verðtryggingarinnar illræmdu. Inn í landið streymdi líka dugnaðarfólk, aðallega pólskir iðnaðarmenn "í boði ESB/EES og samkvæmt reglum þess um frjálst flæði vinnuafls"
Verktakar tóku kipp og tóku að byggja í gríð og erg, enda höfðu sveitarstjórnarmenn úthlutað lóðum "alveg vinsti hægri" og talið það vænlegast til að ná árangri í kosningunum 2006. Því miður reyndust lóðirnar langt umfram þörf. Kannski var feillinn sá að menn hugsuðu sér að Pólverjarnir myndu setjast hér að að byggingatörn lokinni og kaupa jafnvel þær íbúðir sem þeir voru nýbúnir að reisa. Svo varð nú ekki, þeir fóru langflestir úr landi enda ekki mikla atvinnu að fá við byggingar eftir að byggingabólan sprakk.
En hvað Íbúðalánasjóð varðar þá er honum skylt að veita lán til nýbygginga, og líka viðhalds, burtséð frá því hvort þörf sé fyrir íbúðarhúsnæðið eður ei. Þetta vita verktakar og þess vegna komust þeir svona langt með húsin ( sem betur fer ) en fóru síðan illa út úr því vegna þess að eignirnar seldust ekki og lentu því í höndum sjóðsins og lánastofnanna. Umframlán bankanna í formi myntkörfulána gengu svo endanlega frá byggingaverktökunum fjárhagslega.
Allt þetta er ein sorgarsaga og ég vona að fólk geti nú lært af reynslunni, sem sagt að fyrirhyggjuleysi og óheft frelsi leiðir til ófarnaðar Nú verðum við að huga að því að koma íbúðunum í gagnið til unga fólksins sem er að hefja búskap. Dæmið verður reiknislega að ganga upp hvort sem um er að ræða leigu eða kaup á húsnæðinu sem ekki er í notkun. Þarna eru mikil verðmæti sem verður að nýta án þess að setja drápsklyfjar á það fólk sem tekur við þeim.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
4.12.2010 | 14:15
Uppskrift að stórum kosningasigri
Jæja, þá er búið að kjósa á stjórnlagaþing og við vonum að þeim farist hönduglega við að endurnýja stjórnarskrána okkar. Endilega vil að minna á þá hugmynd að skipta landinu í tvö kjördæmi. ( sjá næstu bloggfærslu á undan )
Í nýafstöðnum kosningu til sveitarstjórna kom ýmislegt í ljós. Það er ekkert skrítið að fjórflokkurinn hafi beðið nokkuð afhroð. Þessir flokkar eru að upplagi eldgamlir eða með mjög gamlar rætur. Bendi á að Hafnfirðingar áttu engan kost annan en að sitja heima til að sýna andúð sína á meðan Reykvíkingar kusu Besta flokkinn til valda, dálítið upp á von og óvon. Í stærri bæjarfélögunum kusu Garðbæingar og Seltirningar íhaldið eins og venjulega en í Kópavoginum varð loksins breyting á valdamunstrinu.
En það er langt í næstu sveitarstjórnakosningar en það gæti verið ekki svo mjög langt í þingkosningar. Gömlu flokkarnir hafa gert svo fjöldamargt gott í gegn um tíðina og orðið líka margt á enda alltaf staðið í samsteypustjórnum og málamiðlunum. Þeir eru kannski eins og verslunin sem þú hefur verslað við um langan tíma en lendir svo í því að kaupa skemmdan mat og þá kemur hik á þig og þú ferð annað. Ef þetta gerist ítrekað hjá fleiri kúnnum er eins gott að kaupmaðurinn taki sig verulega á eða fari helst að reka aðra búð undir öðru nafni og með öðru starfsfólki.
Besti flokkurinn var grínflokkur en hafði þá sérstöðu að hafa ekkert " pólitískt rekord", reyndar enga stefnuskrá en með skynsamt fólk og óflekkað innanborðs. Væri ekki hægt að mynda "Langbesta flokkinn" sem eingöngu byggði á skoðunum meirihlutans,sem sagt með vandaðri skoðanakönnun um alla helstu þætti sem flokkur þarf að takast á við. Undanfarið hefur kosningabaráttan einkennst af því að finna besta slagorðið og síðan að bjóða uppá gömlu tuggurnar og hvar í litrófi stjórnmálanna flokkarnir eru staðsettir og það er ekki mjög fjölbreytt. Frá rauðu um grænt og yfir í blátt.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 6.12.2010 kl. 21:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
19.11.2010 | 12:00
Landið sem TVÖ kjördæmi
Það styttist í stjórnlagaþingskosningar og þá kemur ekki til með að vanta hugmyndir frá okkur bloggurum. Margar tillögur eru þegar til frá þjóðfundum undanfarinna missera og margar þeirra efalaust góðar. Ekki veit ég hvort þessi tillaga mín um nýja kjördæmaskipun er þar inni en ég má til með að láta hana flakka og það er svo annarra að huga að því hvort hún er nýtileg.
Ný kjördæmaskipan verður efalaust á dagskrá stjórnlagaþingsins og hugmyndir um að hafa landið sem eitt kjördæmi og halda óbreyttri skipan. Varla verður kjördæmum fjölgað frá því sem nú er. Tillaga mín er sú að landið verði tvö kjördæmi með næstum jafnan fjölda íbúa í hvoru þeirra.
Kjördæmi A yrði þannig: Reykjavíkurkjördæmin tvö ásamt Mosfellsbæ úr Suðvesturkjördæmi og Norðvesturkjördæmi.
Kjördæmi B yrði þannig: Suðvesturkjördæmi að undaskilldum Mosfellsbæ, Suðurkjördæmi og Norðausturkjördæmi.
Hvort kjördæmi hefði þá um 100.000 kjósendur. Kjördæmið sem hefði meiri kjörsókn fengi þá einum þingmanni fleira til að ná oddatölu þeirra. Það er of mikil breyting að gera landið að einu kjördæmi í einu stökki. Þetta nýja fyrirkomulag á kjördæmaskipan ásamt jöfnun atkvæða.sem er auðveld í kjölfarið. tel ég að leiði fljótt til mun farsælli stjórnarhátta.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 23.11.2010 kl. 20:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
12.11.2010 | 14:24
Gott hjá Gnarr
Það er þakkarvert að meirihluti borgarstjórnar blés af samgöngumiðstöðina sem enginn kærði sig í raun og veru um. Þetta er búið að vera gæluverkefni fyrrverandi samgönguráðherra lengi. Nú getur hann snúið sér að því rukka veggjöld kringum Reykjavík, með eftirliti að ofan ef ekki vill betur, til að borga væntanlegar vegaframkvæmdir og væntanlega einnig vexti af lánum til stórframkvæmda seinustu ára. En í þeim var ráðherrann ekki einhamur. Ég er sammála Ögmundi arftaka hans að flugvöllurinn verði þarna um langa hríð, en núverandi aðstaða flugfarþega löguð til muna, helst með nýbyggingu.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
9.11.2010 | 13:59
Sjálfbærni landsins - hagnaður og tap á tímum verðtryggingar
Ekki er ofsagt að fjölmargt bjátar á í okkar annars ágæta landi og ekki eru allir á eitt sáttir um leiðina út úr vandanum. Ég staðhæfi að íslensk stjórnvöld hafi ekki í annan tíma staðið frammi fyrir öðrum eins vanda og síðastliðin tvö til þrjú ár. Nokkur jákvæð teikn eru á lofti svo sem minnkandi verðbólga, sem alla jafnan þýðir minnkandi vexti og afborganir. Einnig jákvæður viðskiptahalli um þó nokkurt skeið enda hafa ekki verið fluttar inn dýrar vörur til framkvæmda né annarra nota svo sem flugvélar,skip eða nýir bílar í miklu magni. Kannski er því einmitt núna rétti tíminn til að "núllstilla þjóðfélagið."
Stærstu hagstærðirnar í þjóðarbúskapnum eru ríkisreksturinn annars vegar og atvinnulífið eða einkageirinn hins vegar. Hvorugur aðilinn getur án hins verið. Ríkið sér um að halda þjóðfélaginu gangandi og einkageirinn aflar tekna til að standa undir ríkisbatteríinu. Ríkið stendur þó í tekjuöflun sem sátt er um, á jafn ólíkum sviðum sem áfengis- tóbakssölu jafnt sem raforkusölu. Ríkisstarfsmenn t.d í mennta- og heilbrigðisgeiranum afla ekki tekna en skapa óbein verðmæti sem ekki er hægt að vera án. Ef vel ætti að vera ætti að reka þjóðarskútuna eins og hvern annan togara þar sem laun fylgdu aflahlut. Ríkið, eða útgerðin þarf sitt til fjárfestinga og viðhalds og afkoma hennar og áhafnarinnar fylgja svo síðan því hvernig fiskast.
Þetta þykir efalaust full mikil einföldum í okkar flóknu tilveru þar sem röð mannlegra mistaka hefur á á skömmum tíma kippt fótunum undan þúsundum fjölskyldna hér á landi og gert mörgum ókleyft að komast af, hvað þá að eignast eigið húsnæði. Tiltölulega einfalt er að setja þetta í jöfnu sem yrði eitthvað á þessa leið: Of mikil obinber yfirbygging þ.e. of mikill rekstrarkostnaður hennar samhliða minnkandi tekjum einkageirans er ávísun (= ) á skuldasöfnun ríkisins, aukin vaxtakostnað og í kjölfarið verðbólgu með hækkandi verðtryggðum vöxtum. Á þessu tapar almenningur þ.e. lántakendur en bankar og fjármagnseigendur ásamt lífeyrisþegum hagnast. Þarna tapast meiri hagsmunir fyrir minni og útkoman verður þjóðfélag sem fæstir vilja búa í, þjóðfélag ójafnaðar.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
26.10.2010 | 22:45
Hið fullkomna bankarán
15.10.2010 | 13:13
Einföld ökonomía - seinni hluti
Í hagfræðinni finnast flókin hugtök og margir óvissuþættir enda framtíðin eitthvað sem engan vegin er á hreinu. Eftir að okkar kerfi hrundi af svo sem mörgum ástæðum hefur ekkert róttækt gerst þótt nú sitji við völd vinstri stjórn sem að öllu jöfnu væri best treyst til slíkra verka. Innviðir kerfisins brustu og það sem fyrir nokkrum árum var að ganga upp féll saman og úr varð "margfaldur forsendubrestur" sem kom harðast niður á þeim sem hugðu eðlilega ekki að sér enda gekk (stjórnmála-) maður undir ( banka- ) manns hönd til að segja okkur að hér væri allt með ágætum.
Höfum það á hreinu að Ísland hefur alla burði til að veita þegnum sínum góð lífskjör og við verðum að treysta því að með góðra manna hjálp takist það og áður en langt um líður. Það sem brennur helst á fólki er auðvitað hinn mikli skuldavandi sem þúsundir heimila eru komin í en þann vanda hefur ekki tekist að leysa á viðunandi hátt. Í stað þess að ráðast gegn vandanum er reynt að tjasla upp á núverandi kerfi með niðurskurði og skattahækkunum þegar vandinn sjálfur liggur í húsnæðis og vaxtamálunum ásamt áhangandi verðtryggingu. Við fórum of geyst og byggðum allt of mikið á þessum áratug en það góða við það er að þá var krónan sterk og þar sem langstærstur efniskostnaðar til bygginga er frá útlöndum er þetta húsnæði til staðar en búast má við að byggingarkostnaður hækki á næstu árum.
Það sem ég vil meina með einfaldri ökonómíu er þetta. Það getur aldrei farið saman að venjulegt ungt fólk sem er að hefja búskap geti gert hvort tveggja.; Keypt eða leigt húsnæði rándýru verði og tekið til þess lán á hæstu vöxtum sem þekkjast á byggðu bóli. Þess vegna verður að reikna út og finna leið til þess að þetta gangi upp. Greiða til baka umframvaxtakostnað af lánum sem fólk tók í góðri trú, miðað við það sem eðlilegt má teljast, og afnema verðtrygginguna til að fólk sjái lán sín lækka. Grunnurinn er þessi, jafnvel til að landið haldist í byggð. Annað má mæta afgangi.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:37 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
8.10.2010 | 22:33
Einföld ökonomía - fyrri hluti
Það er á engan hátt auðvelt að reka þjóðríki svo vel fari. Svipað og að reka fyrirtæki þar sem alls ekki er hægt að treysta starfsfólkinu sem gengur um rænandi og ruplandi. Uppi í stjórnarherberginu standa stjórnendur helst í því að níða skónn niður hvor af öðrum. Sumir í þessu fyrirtæki hafa þó komið sér vel fyrir og þurfa litlar áhyggjur að hafa meðan aðrir líða skort. Hluthafa, eigendur fyrirtækisins, dreymir um að til valda komi þeir sem sem eru alfarið samnefnarar þjóðarviljans og geri hlutina eins og réttast er en myndi ekki hópa sem hafa rétt fyrir sér á einu sviði en rangt á öðru og komast þar af leiðandi ekki á þá leið sem skynsömust er. það að gera fyrirtækið sjálfbært og starfsfólkið allt búi við þokkaleg kjör.
En bregðum okkur frá dæmisögu að Íslandi nútímans. Tveir svokallaðir vinstri flokkar eru við völd,flokkar sem eiga rætur í sósialisma, jafnvel kommúnisma sem þeir þurftu síðar að afneita og viðurkenna, þrátt fyrir duggan stuðning, að var stórhættulegur heimsbyggðinni og gekk ekki upp,hvorki mannlegi hlutinn né sá efnahagslegi. Sjálfstæðisflokkurinn hefur ekki skipt um heiti þótt kapitalisminn og síðar nýfrjálshyggjan, sem hann studdi, hafi beðið stórfelldan hnekki ekki síst hér á landi. Í miðjunni hefur svo Framsóknarflokkurinn staðsett sig um langa hríð og sveiflast frá vinstri til hægri og haft það erfiða hlutskiptiað sæta árásum frá báðum þeim áttum.
En ökonomían ? Er nema von að hún sé í slæmu horfi eftir öll mistök undanfarinna áratuga? Bæði kerfin eru stórgölluð. Reynt er að tjasla upp á ofhlaðinn sósíalisma og lausbeislaðan kapitalisma sem hlýtur lögmálum frumskógarins nema hvað að þar sigrar sá sterki, eða öllu heldur sá sem hefur komið sér best fyrir. Helsti vandi okkar nú er sá að þjóðarbúskapurinn er sífellt að verða minna sjálfbær og stefnir í ógöngur. En meir um það síðar.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)