Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
12.12.2008 | 20:24
Er hátekjuskattur táknrænni en aðrir skattar ?
Nýjustu aðgerðir ríkisstjórnar vekja furðu. Fólk sættir sig ef til vill við eins stigs prósentuhækkun skatts vegna aðsteðjandi vanda en hækkanir á áfengisgjaldi,bensíni og vörugjöldum er algjörlega óskiljanlegar. Þessar aðgerðir hækka að sjálfsögðu neysluvísitölu og þar af leiðandi öll verðtryggð lán. Jafnvel þótt neyslan stórdrægist saman. Neysluvísitalan mælir nefnilega ekki neyslu heldur hækkun vöruverðs. Áætlaðar tekjur ríkissjóðs eru aðeins helmingur af áætlaðri hækkun lánanna !!
Má ég þá frekar biðja um frekari hækkun skatta og þá sérstaklega um fjölgun skattþrepa. Það verður að finna sanngjarna leið sem almenningur sættir sig við á þessum tímum þannig að þeir sem meira mega sín greiði hlutfallslega hærri skatt. Og þá er hátekjuskattur allra síst undanskilinn.
Fjölgun skattþrepa er eina úrræði ríkisins til að halda aftur af græðginni, sem hefur komið okkur illilega í koll, ásamt vönduðu regluverki um lánastarfsemi. Strangt eftirlit með fjárfestingum ætti líka að vera bundið í lög. Eða er það í lagi að einn einstaklingur geti óátalið tapað 60-70 milljörðum á einu ári í "áhættufjárfestingum" ? Er heimskapítalisminn ekki búinn að læra sína lexíu?
30.11.2008 | 16:22
LJÓS Í MYRKRINU ?
Það eru margir samverkandi þættir sem hafa sett okkur út á kaldan klakann. Ég nefni örfáa: Það er galli við lýðræðið hve langan tíma það tekur fyrir fólk, sem lengi hefur verið í stjórnarandstöðu, að venjast breyttum aðstæðum. Það eru mikil umskipti að hafa verið ábyrgðarlausir gagnrýnendur og taka síðan við stjórnartaumum. Of langan tíma tekur að venjast nýjum aðstæðum og nýjum samstarfsflokki (-flokkum ) og allt fer í hægagang á meðan, einmitt þegar kannski mest ríður á að stjórna af röggsemi. Þetta á bæði við um ríkis- og borgarstjórn eins og dæmin sanna.
Fyrirbærið einkaframkvæmd er annað. Sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu gáfu henni lausan tauminn án nokkurra hamla og framkvæmdirnar hafa sett með öðru bankana á hliðina. Næstum óheftur aðgangur að lánsfé í bönkunum í bland við framkvædagleði og gróðavon er eitruð samsetning, sérstaklega þegar stjórnir sveitarfélaganna koma sér ekki saman um hvað sé eðlilegt framboð af lóðum miðað við eftirspurn. Þessu sér stað víða á höfuðborgarsvæðinu og er ekki vel fallið til að minnka barlóminn í landanum þegar hann sér og veit að allt er þetta gert á dýrum lánum.
En nú vil ég koma með jákvætt innlegg í umræðuna. Ég átti leið sem oftar um Borgartúnið í dag og þar gefur að líta 19 hæða skrifstofuturn sem kominn er vel á veg. Þar vinna menn hörðum höndum við að glerja hverja hæðina á fætur annarri um hávetur til að grind byggingarinnar standi ekki ber og sem minnismerki um forna og ofvaxna drauma. Aðrar einkaframkvæmdir sem eru að komast í hann krappann eru Tónlistarhöllin og Nýja HR byggingin við Öskjuhlíð. Innskot: Við mörg munum þá tíma þegar það tók fjölmörg ár að reisa Þjóðarbókhlöðuna / Landsbókasafnsbygginguna. Kannski er byggingin dæmi um þann framkvæmdahraða sem ríkið ræður við að fjármagna hverju sinni. Ég sleppi því að minnast á Hátæknisjúkrahúsið og Sundabrautina,sem ráðamenn eru búnir að eyða í stórfé en sjá vonandi að við höfum ekki efni á og allra síst sem einkaframkvæmd.
En aftur að Borgartúninu og Höfðatorgi á jákvæðum nótum. Ég skora á borgaryfirvöld að leyfa og hvetja framkvæmdaraðilann til að breyta turninum háa í hótelbyggingu, með aðkomu fjárfesta og / eða borgarsjóðs og vinna áfram að fullum krafti til að koma honum í gagnið, jafnvel næstasumar. Staðsetningin er afbragðsgóð en sem skrifstofubygging, almáttugur ! Verðum við ekki að viðhalda smá bjartsýni og treysta á að ferðaþjónustan skili okkur arði, og byggingar í tengslum við hana, eiga að hafa forgang og skapa atvinnu fyrir þá sem nú eru að missa hana.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 13.12.2008 kl. 14:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
26.11.2008 | 14:03
Nýtt umboð þýðir bara nýtt umboð
Maður hafði það á tilfinningunni horfandi á umræðurnar á þingi um vantraust á ríkisstjórnina að þær væru til þess gerðar að nú ætti stjórnin að víkja og stjórnarandstaðan að taka við og ekki seinna en á nýjársdag ! Og að það væri ótimabært vegna anna við björgunarstörf og lánsumleitanir. Þetta er misskilningur. Þjóðin vill kosningar þar eð hún treystir ekki núverandi stjórn vegna þeirra hremminga sem hér hafa dunið yfir. Með vorinu, þegar verkefnahraukurinn hefur minnkað, er sjálfsagt að kjósa og þá koma allir flokkar til leiks af endurnýjuðum krafti.
Það þarf að kjósa með styttra millibili, þó ekki væri nema vegna breytinga á stjórnarskrá, vegna hugsanlegra upptöku annarar myntar,valdaafsals til ESB og vonandi um breytta kjördæmaskipan. Í kjölfarið kæmi fækkun þingmanna ef kjördæmin yrðu aðeins eitt eða tvö. Ástandið lagast ekki nema að við sjáum í augsýn nýtt Ísland.
24.11.2008 | 09:26
Ögurstund á Alþingi
Stjórnmál og samfélag | Breytt 13.12.2008 kl. 21:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
10.11.2008 | 22:19
Tíminn líður hratt...
... segir í kvæðinu vinsæla. Og allt logar: bloggheimar jafnt sem síður dagblaða. hagfræðingar leita lausna í og kvöld- og morgunþáttum fjölmiðla. Og á Austurvöll mætir fólk hvern laugardag til að ráða ráðum sínum, varpa fram hugmyndum og ekki síst til að mótmæla ástandi og framtíðarhorfum sem vægast sagt eru óálitlegar.
En á Alþingi ríkir doðinn einn og yfirlýsing forsætisráðherra frá í dag fyllir mælinn. " Ekki ástæða til að boða til kosninga að svo stöddu " Nóg ástæða til þess er að það þarf að breyta stjórnarskránni og það í hvelli til að fleiri möguleikar gefist en sá að bjarga krónunni með óheyrilegum lántökum.
Hvers vegna kemur ekki fram tillaga um vantraust á stjórnina ? Er ekki rétt að Samfylkingin hugsi sinn gang og viðurkenni mistök sín hvað varðar aðkomu og ábyrgð á fjarmálahremmingum þjóðarinnar. Treystum við núverandi stjórn og seðlabanka til að taka rétt á málum. Yrði ekki utanþingsstjórn affararsælli. Verðum við ekki að taka hratt á málum áður en þessi trausti rúna stjórn hefur tekið .....já voru það ekki 2 + 4 milljarðar dollara lán, ég undirstrika lán sem ætlað er til áframhaldandi tilraunaverkefnis að viðhalda krónunni? Við megum þakka fyrir ráðrúmið sem okkur gefst á meðan alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hugsar sinn gang !
7.11.2008 | 12:56
Sameining sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu og aðrir sjálfsagðir hlutir
Það stefnir í kosningar. Kannski eru aðeins nokkrir mánuðir þangað til. Stjórn sem hefur klúðrað málum jafn átakanlega hlýtur að víkja fyrr frekar en síðar. Þess vegna má engan tíma missa fram að kosningum til að laga þá hluti sem þarf í stjórnarskrá og krefst tveggja kosninga. Þar nefni ég framsal valds til erlendra stofnanna eða upptaka annars gjaldmiðils. Þetta þarf að undirbúa fljótt og vel. Að mínu mati mætti einnig athuga hvort núverandi kjördæmaskipun sé sú rétta. Margir eru hlynntir því að landið verði eitt kjördæmi en einnig gæti komið til greina að því væri skipt í tvö kjördæmi. Annars vegar höfuðborgarsvæðið og hins vegar landsbyggðin og því samfara einhver fækkun þingmanna með einhverri réttlátri skiptingu milli kjördæmanna tveggja.
Að mínu mati er núna nauðsynlegt að sameina sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu í eitt. Sveitarfélag sem í fyrstu væru með sameiginlega fjárhagsáætlun, þ.e. útsvarstekjur sem og skipulag og stjórn svæðisins. Þó væri góð tenging í fyrri bæjarstjórnir sem að einhverju leiti störfuðu áfram og með sína fulltrúa í aðalstjórn. Nú eru íbúar ( 1 des 2007 ) 200.000 og bæjar- og borgarfulltrúar 63. Eðlilegt væri að sú aðalstjórn væri skipuð um 30 fulltrúum í nokkuð réttum hlutföllum við íbúa núverandi sveitarfélaga alla vega fyrsta kjörtímabilið. Þarna veldust vonandi fljótlega hæfir nýir fulltrúar í bland við þá sem við treystum af þeim sem nú stjórna.
Tökum nokkur dæmi: Hafnfirðingar felldu stækkun álvers,sem er ekki síður hagsmunamál alls svæðisins.
Það er aðkallandi að koma upp orkufrekum iðnaði ( stóriðju) á höfuðborgarsvæðinu og væri t.d.ekki góð staðsetning hennar á Geldinganesi. Sjáum við fyrir okkur að það væri framkvæmanlegt án undangenginnar sameiningar.
Nú er nauðsynlegt að hreinlega ákveða hvað af þessum hálfbyggðu svæðum sem unnin hafa verðið að mestu sem einkaframkvæmd verði látin hafa forgang í uppbyggingu og reynt að losa þann skuldaklafa sem á þeim framkvæmdaaðilum hvílir. Og svo margt annað sem ekki er rúm fyrir að telja upp. Sem sagt; nú í allri óreiðunni tökum við höndum saman og byggjum betra samfélag á grunni þess gamla.
5.11.2008 | 10:03
Enn um evru, EES og ESB
Við erum hnípin þjóð í vanda, stórum vanda. Að mestu er hann heimagerður en þó að stórum hluta tengdur alþjóðavæðingunni og fjármálakreppunni margumtöluðu sem nú á heimsvísu gerir öllum lífið leitt.
Þegar við sóttum um inngöngu í EES og gengumst undir regluverk Evrópusambandsins þar með talið fjórfrelsið svokallaða var engin Evra til. Hver þjóð hafði sinn gjaldmiðil. Síðar kom Evran og hin örsmáa króna tók að fljóta líkt og korktappi á ífðu vatnsyfirborði. Spurningin er þessi, hvernig er hægt að gangast undir frjálst fjármagnsflæði milli landa og sameiginlegan vinnumarkað, þar með talið að bjóða út stærri verk á ESB svæðinu samkvæmt þeirra reglum, en hafa ekki rétt til að taka upp evru sé það vilji þjóðarinnar? Hvort við síðan viljum ganga í sjálft sambandið er svo allt annað mál. Þetta er réttlætismál og þeir sem með þessi mál höndla hér heima og í Brussel, verða að gera sér grein fyrir að af stórum hluta er ástæðan að svona illa er fyrir okkur komið, að við máttum ekki taka upp evruna þótt við fegin vildu. Hvernig gengur það upp að núna, þegar við megum ekki kaupa inn vörur frá útlöndum fyrir hærri upphæð en 50.000.- krónur í símgreiðslu, skuli erlendir verktakar vinna stórverk sem fengin eru í alþjóðlegum útboðum. Síðan er launakostnaður og virðisauki verksins sendur beint til heimalands verktakans í formi dýrmæts gjaldeyris ? Ja, ég bara spyr !
31.10.2008 | 10:51
Bara ein spurning
HVERS VEGNA ER RÍKISSJÓÐUR ÍSLANDS ALLT Í EINU SKULDSETTUR UPP FYRIR HAUS TIL LANGRAR FRAMTÍÐAR ? Ég á von á að svör frá stjórnmálamönnum verði bæði loðin og óskýr ef þau koma þá einhvern tíma. En ef fræðimenn og hagspekingar gætu fundið út úr þessu og gefið okkur viðhlýtandi svör yrðum við þeim þakklát.
29.10.2008 | 16:24
Doði
Verð að viðurkenna að þetta ástand undanfarinna vikna er, eins og einhver nefndi það réttilega, súrrealíst. Er þetta virkilega að eiga sér stað? Það var full vinna að fylgjast með atburðum og meðtaka neikvæðar og nánast ógnvekjandi fréttir.
Forrsætisráðherrann og ráðherra bankamála stóðu sig mjög vel í upplýsingagjöf við þær erfiðustu aðstæður sem nokkur íslensk stjórn hefur komist í. Undanfarin ár hefur allur almenningur helst þurft á deyfilyfjum að halda til þess að umbera all sukkið og svínaríið tengt útrásinni og bankageiranum,sem kristallaðist í ofurlaunum ýmissa aðila,sem nú eru líklegast til að verða uppvísir að því að hafa sett okkur á hausinn.
Nú,í lok oktober ríkir hins vegar doði. Bæði hjá almenningi og stjórnvöldum. Stjórnvöldum sem ættu nú sem aldrei fyrr að taka til hendinni til og leita leiða út úr steðjandi vanda sem er geigvænlegur.
Jafnvel í krafti neyðarlaga sem almennur kjósandi sættir sig við ef það skilar einhverju. Sem sagt uppbygging svo sem, orkufrekur iðnaður,bæjar- / borgarútgerð með auknum aflaheimildum, lækkun launa allra sem eru yfir milljón ( bara til að sleppa við upreisn ! ) og umfram allt ekki þrefa um hluti sem ekki skipta nokkru máli akkúrat núna og er einungis veruleikaflótti svo sem ESB og evran.
Og vonandi sjá aðilar vinnumarkaðarins að sér og slái umræðum um þau mál á frest.
26.10.2008 | 17:39
Að setja sig niður meðal þjóða....
......er langt frá því að vera einfalt mál. Það má ræða þetta endalaust, það má fara í viðræður um inngöngu, það má kjósa um í þjóðaratkvæðisgreiðslu hvort við eigum að sækja um og síðar um hvort við ætlum í alvöru inn í sambandið. Ef við á endanum samþykkjum það förum við inn í fyrirheitna landið að mati sumra og tökum upp hina langþráðu evru sem öllu á að bjarga. En Þetta tekur allt sinn tíma og framundan er að koma okkur á réttan kjöl. Við erum samt ekki stödd á leku bátskrifli,heldur lúxusfleyi með úrbræddan mótor. Við slíkar aðstæður er tímanum ekki eytt í að þrátta um hvaða mótor við ætlum að kaupa næst heldur bjarga okkur sem best við getum í land og helst fleyinu ósködduðu. Nóg eigum við af spakmælunum, t.d...árinni kennir illur ræðari, sem mætti snúa til nútimans ; krónunni kennir um slöpp stjórn. En sú vegferð að gerast aðili að ESB er bæði löng og ströng og hún gæti alveg eins endað með "norsku neji" eins og íslensku jái. Satt að segja held ég að við eigum meiri samleið með Norðmönnum einum eða Skandinövum en mannmergðinni á meginlandinu. Við erum í eðli okkar smákóngar og drottningar en svo ógnarsmá miðað við stóru þjóðirnar í álfunni. Vilta vestrið í henni Amiríku forðum daga held ég að hafi verið barnaleikur miðað við það efnahagslega og menningarlega "vestur" sem skapaðist hér eftir inngönguna í Evrópusambandið.Við sitjum nefnilega á auðævum sem aðrar þjóðir eru sólgnar í.
þá
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)