Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Kofadýrkun er kannski fullsterkt orð en...

Komin er upp pattstaða víða í borginni. Yfirgefin hús og illa farin eru mörgum til ama ekki síst þeim sem búa nærri þeim. Ekkert virðist miða áfram að leysa þessa stöðu sem er ekki einföld. Þar fléttast saman í einum hnút hagsmunir,verndarsjónarmið, pólitík, byggingareglugerðir og deiliskipulag. Hár byggingakostnaður, blánkheit í kreppu og eflaust sitthvað fleira.

Ef ekki er hægt að leysa þessi mál akkúrat núna verður það seint gert. Nú er atvinnuleysi hjá arkitektum, verkfræðingum og iðnaðarmönnum og þeir streyma af landi brott þannig að nú ætti að vera hægt að byggja á hagkvæman hátt. Ég geng út frá því að af þeim tuga húsa sem þannig er komið fyrir er kannski tíundi hluti þeirra verðugur þess að vera endurgerður. Hin húsin öll má rífa og byggja ný sem falla að umhverfinu. Fyrsta regla, sem bæði snertir mannréttindi og lög en gengur e.t.v. á skjön við reglugerðir byggingayfirvalda er þessi; Ef aðili hefur ( fengið að kaupa ) keypt  hús á lóð til niðurrifs og greitt fyrir hvorttveggja á honum að vera heimilt að byggja nýtt. Hann á ekki eftir á að þurfa að þrefa við byggingayfirvöld eða húsaverndarfélög. Sá á ekki heldur að greiða skatta og gjöld af ónýtu húsi né vera skikkaður til að leggja út í kostnað við að endurgera það, væntanlega að utan, til að það særi ekki augu vegfarenda. Legg ég til að til dæmis sjö manna fjölskipaður hópur þar sem lítill minnihluti getur ekki ráðið för, geri úttekt á þessum húsum og ákveði hvað gera skuli við þau og í hvaða röð. 

 


Í minningu Icesave

Sá sem gaf innlánsreikningunum Landsbankans í Bretlandi og síðar í Hollandi nafn, taldi að hreinleiki íssins í bláhvítri umgjörð vatnsins, væri ávísun á traust og hann virðist hafa hitt naglann á höfuðið. Peningar streymdu inná reikninga, en þó ekki síst vegna óvenjuhárrar ávöxtunar. Frá því síðan í bankahruni hefur þetta vitlausa nafn klingt í hausum og flætt um í orðræðu landsmanna. Hefur fólk reynt að þýða eða staðfæra fyrirbærið sem þýðir einfaldlega Íssparnaður, jafnvel Ísspara eða einna helst Ísspörun. Vitlausara gat það nú ekki orðið. Og nú skal þjóðin öðru sinni kjósa um þetta orðskrípi eða lögin um lúkningu þess en um óvissa fjárhagslega framtíð hver sem útkoma kosninganna verður. 

Löng og erfið heiti eru gjarnan skammstöfuð. Hefðum við ekki getað fundið langt heiti yfir þennan óskapnað sem vísaði til alvarleika málsins en bæri ekki þetta órökrétta en frekar "krúttlega" heiti og fundið því skammstöfun? Hvað með; Innistæður útlendinga í íslenskum einkabönkum erlendis, sem almenningur vissi ekkert um og því síður taldi sig einhverntíma þurfa að bera ábyrgð á.

Ég segi nei við þessu KLÚÐRI sem það gæti alveg eins heitið.


Betra Lækjartorg

Í tilefni af lokun Austurstrætis fyrir bílaumferð og gerð göngugötu á hluta þess, vil ég koma hér með hugmynd að bættu Lækjartorgi. Það torg hefur alltaf verið til vandræða vegna vindstrengs eftir Lækjargötunni og einnig vegna mikillar truflunar frá umferð. Væri ekki ráð að mynda tveggja til  fjögurra metra skjólvegg torgmegin við gangstéttina gegnt Stjórnarráðinu og gera þannig  torgið skjólsælla og laust að mestu við truflun af umferð? Auðvelt er að mynda aðkomu frá torginu að strætó biðstöðinni eða færa hana, en engin umferð gangandi ætti að vera þar yfir Lækjargötuna. Skjólveggurinn gæti verið með  snúningshurð við austurenda  hússins að Hafnarstræti 20 sem stendur við torgið og loka af næðinginn úr þeirri áttinni. Útlit og gerð skjólgarðsins mætti hugsa sér á mjög margvíslegan hátt. Gæti hann sem slíkur staðið sem sjálfstætt listaverk eða skúlptúr. Halda mætti samkeppni um gerð hans meðal listamanna og arkitekta. Best hefði verið að bygging hans og lokun Austurstrætis, ásamt opnun torgsins sem myndast við endurbyggðu húsin sunnan strætisins, hefðu tengst saman bæði í hönnun og í framkvæmd. Það verður þó varla úr þessu þar sem þegar hefur verið hafist handa í Austurstrætinu.

Svona eftir á að hyggja hefði mátt nýta strendingana sem nota átti í Hörpuna en voru gallaðir og  sendir í brotajárn. Þá hefði mátt nota í þennan vegg og um leið hefðu þeir orðið skemmtileg tenging við húsið umdeilda sem stendur nokkru norðar.

 


Evruþversögnin - eru þið ekki að grínast?

Stöðugt er klifað á því af stuðningsmönnum inngöngu í ESB að þangað skuli haldið til að geta tekið upp Evru sem öllu eigi að bjarga. Aðrir segja réttilega að krónan hafi bjargað því sem bjargað varð eftir hrunið og flestir eru sammála því að hún einfaldlega sé spegilmynd hagstjórnunar hér á landi.

Vond hagstjórn sem á sér djúpar rætur leiðir til óðaverðbólgu hára vaxta og verðtryggingar og gerir allan rekstur ríkissjóðs og fyrirtækja mjög efiðan. Ef fólk er ánægt með krónuna í dag verður það þá ekki hæstánægt með hana þegar við á endanum verðum búin að uppfylla Mastrichtskilyrðin um stöðugleika og agaða hagstjórn ? Nema... þá erum við komin inn í Evrópusambandið og getum því tekið upp hina langþráðu Evru. En þá er ég bara viss um að allir vilji halda í krónuna, Evran breytir engu!

 

 


Fólkið fyrst, síðan landið !

Það er skrítið hvað við þurfum að vera ósammála um flesta hluti. Kannski er það þessu blessaða fjórflokkakerfi að kenna. Hér þurfa flokkar að koma fram með sem flestar skoðanir eða stefnur og ná fylgi í kringum þær. Ef flokkur sem vill helst ekkert gera í orkumálum fær eitthvað atkvæðamagn,þá telur hann sér skilt að halda því til streytu,hvað sem tautar og raular. Margir halda að við getum öll lifað góðu lífi á því að selja rútumiða í skoðanaferðir um landið sem þó er ekki heimsótt af ferðamönnum að nokkru ráði nema part úr ári. Það er auðvitað gott en þá með öðru, þar með talin sala á rafmagni. Þeim sömu finnst ef til vill bara best að sem flestir flytji úr landi og leiti sér vinnu annarsstaðar.

 Við höfum haldið eins illa á málum undanfarin áratug eins og frekast var hægt.  Enn erum við að súpa seyðið af vitleysunni og eigum því erfitt með að koma okkur á almennilegt á skrið aftur. Nú eru það almennar skattahækkanir, og ekki síst einhverjir umhverfisskattar á allt vélknúið sem halda mörgu niðri og koma til með að hækka alla flutninga með ófyrirsjánlegum afleiðingum. Skattarnir voru hækkaðir með hliðsjón af því að við ættum, hefði ég haldið, að borga allt Icesaveklúðrið upp í topp. Nú er upphæð "meintra skulda" ekki nema brot af þeim upphaflegu, þökk sé forsetanum, en ekki bólar á lækkunum.   

Við megum til að koma vatnsorkunni í verð og þá tala ég um fallvötnin en hætti mér ekki út í umræðuna um jarðhitann. Fossar í jökulám eru flestir í mínum augum í heldur ógnvænlegir en geta talist tröllsleg fegurð. Ég er viss um að Dettifoss yrði jafn fallegur  með 10 % af rennsli. Afgangurinn færi svo virkjaður sem rennslisvirkjun og skilaði okkur milljónatekjum á sólarhring, líklegast um 20, en hann er fimmfalt aflmeiri en Urriðafoss. Þetta gæti skapað mikla atvinnu meðan á framkvæmdum stæði og síðan gjaldeyristekjum um langa hríð. Ég tek Dettifoss bara sem dæmi en þetta á um marga aðra fossa í jökulám. Bendi á að heimsins frægustu fossar, Niagarafossar hafa verið virkjaðir frá 1925, sjá krækju; http://en.wikipedia.org/wiki/Robert_Moses_Niagara_Hydroelectric_Power_Station       og ekki vantar ferðamannastrauminn þangað.

Þannig gætum við farið að grinnka á þjóðarskuldunum, bætt lífskjörin og aukið atvinnumöguleika og verðmætasköpun. Grunnstoðir landsins þurfa að vera nægilega traustar og verðmætasköpun næg til að standa undir því sem við hingað til höfum talið sjálfsagt, en erum nú að komast að því að við gerum ekki og alls ekki ef fjölmargir fara af landi brott í atvinnuleit.

 

 


Að fara eftir lögum

Í ljósi þess að Hæstiréttur ógilti fyrstu kosningar til stjórnlagaþings, en margir eru enn með óbragð í munni eftir úrskurð hans, eru orð formanns lögmanna í Sunnudagsmogganum allrar athygli verð. Hann tekur sérstaklega fyrir synjun umhverfisráðherra á virkjunarleyfi. Það á að vera nokkuð ljóst að slíkt á ráðherra ekki að gera, að fara á svig við lög né að skýla sér á bak við pólitík.  En formaðurinn fer inn á  umdeilanlega braut þegar hann nefnir að fara eigi eftir lögum landsins í einu og öllu, því að í mesta einfaldleika þeirra orða mætti álíta að dómstólar og jafnvel lögmenn væru óþarfir vegna þess að með hina fullkomnu lögbók í hendi dygði að fletta upp í henni og komast að niðurstöðu í öllum málum. En vegna þess að lögin eru ófullkomin ( þing- ) mannanna verk  þarf á lögmönnum og dómstólum að halda til að skera úr ágreiningi. Og til þeirra verðum við að bera traust. Það er eitthvað meira en lítið athugavert við þau lög í landi þar sem Hæstiréttur getur ógilt lýðræðislegar kosningar sem þing landsins kom á fót að kröfu þjóðarinnar vegna smámunasemi örfárra manna.

Úrdráttur úr viðtalinu.

Brynjar Níelsson, formaður Lögmannafélagsins, telur að almenningur sé afvegaleiddur í umræðu um ýmis dómsmál og að ýmsir áhrifamenn setji pólitíska hugmyndafræði og eigið réttlæti ofar lögum landsins. Þá gagnrýnir hann Svandísi Svavarsdóttur, umhverfisráðherra, fyrir að taka pólitíska sannfæringu sína fram yfir lög landsins. Þetta segir Brynjar í viðtali við Sunnudagsmoggann. „Það versta við umræðuna er að menn eru farnir að setja pólitíska hugmyndafræði og eigið réttlæti ofar lögum landsins. " og síðar í viðtalinu um sama efni; "En málið snýst ekki um það, málið snýst um að fara að lögum"  Því spyr ég aftur, ef lögin eru gölluð á þá að dæma eftir þeim eins og Hæstiréttur augljóslega taldi sig þurfa að gera við ógildingu kosninganna?


Tvöhundruð og áttatíu milljóna króna setning.

Að mínu mati er ógilding Hæstaréttar á stjórnlagakosningum vart skiljanleg í ljósi þess að fram fóru kosningar sem ekki höfðu verið reyndar hér áður. Einnig er mjög undarlegt að Hæstiréttur hafi talið lög sem Alþingi setur og honum er skylt að dæma eftir, í þessu máli sem öðrum, hafi verið ófullkomin. Er þá ekki alltaf hægt að að finna að og þar með kæra framkvæmd flestra laga því að alltaf má finna hnökra ? 

Var ekki fyrst og fremst verið að reyna að koma í veg fyrir að kosningarnar tækju meiri tíma en einn kjördag sem allt stefndi í ? Að finna að því að kjörseðill hafi ekki verið brotinn saman !!! Það mátti ekki gera það vegna þess að atkvæðin voru lesin í tölvu. Og annað, - kærir fólk ekki gjörning þegar það sjálft hefur hlotið sannanlegan skaða af gjörðum annars eða annarra. Hvað með þremenningana sem kærðu, hvert var þeirra tjón eða hagsmunir? Hvað hefði gerst ef kjörsókn hefði orðið mun meiri og stór hluti kjósenda, þá helst á höfuðborgarsvæðinu, hefði ekki getað komist að. Það hefði örugglega gerst hefði verið farið að tilmælum Hæstaréttar í einu og öllu.                        Hefðu þá kosningarnar ekki sjálfkrafa talist ógildar ?                                                                          Setningin sem vantaði í inn í kosningalög um stjórnlagaþing er.. "að lögin skuli að öðru leiti fylgja lögum um Alþingiskosningar eins og við verður komið".


Nagladekk eru ekki alslæm

Seinni partinn í dag var flughált á höfuðborgarsvæðinu og margir ökumenn áttu í vandræðum sem og gangandi. Umræðan um nagladekkin hefur undanfarið verið of einhliða og ekki allar hliðar skoðaðar. Það er mjög vanhugsað að banna nagladekk og enn síður að skattleggja þau í drep þannig að fólk spari þau við sig. Eina vitræna er að stytta tímann sem má nota þau og þá frekar á vormánuðum. Við aðstæður eins og í dag koma þau að miklu gagni,ekki aðeins fyrir þá sem hafa þannig dekk undir bílnum ,heldur líka hin sem hafa þau ekki. Það er ekkert sem vinnur á hálkunni og brýtur hana upp í eins miklu magni og naglarnir, þannig að þeir sem ekki eru á negldum eða jafnvel vanbúnir til aksturs komast leiðar sinnar. Aldrei verður hægt að salta eða sanda allar götur svo vel sé. Þannig aðstæður með ísingu geta orðið langvarandi. Kostnaður við árekstra og slys eykst þótt malbikunarkostnaður og svifryksmengun minnki eitthvað. Þeir sem aka á negldum dekkjum vinna því óbeint fyrir hina naglalausu og ætti frekar að launa þeim það með lækkun vörugjalda og skatta á dekkjunum. 


Okkur vantar nafn á eldstöð !

Þegar gaus á Fimmvörðuhálsi fundu menn að endingu ágætis nöfn á eldstöðvarnar tvær sem þar létu á sér kræla. Þær voru nefndar Magni og Móði og gætu alveg eins tilheyrt öðrum hvorum jöklinum. Nú gætir mikils misræmis milli nágrannajöklanna tveggja Mýrdalsjökuls með eldstöðina Kötlu og Eyjafjallajökuls. Þar er eldstöð sem  að margra dómi er að gera landið okkar heimsfrægt en hefur ekkert heiti. Jöklar gjósa ekki samanber Vatnajökul en þar eru að minnsta kosti þrjár eldstöðvar þar af tvær með heiti sem ég man eftir. En kannski er þetta of seint í rassinn gripið. Eyjafjallajökull hefur gosið og heimsbyggðin hefur nefnt hann "The Icelandic volcano" þar sem nafnið fellur heldur ekki sérlega vel að öðrum tungumálum.


Við Íslendingar erum ekki dæmigerðir Evrópubúar og því fór sem fór. Ef við göngum í ESB þá fer sem fer!

Það er eiginlega allt sem skilur okkur frá hinum dæmigerða Evrópubúa sem í sjálfu sér er örðugt að finna innan um milljónirnar 500 sem þar búa. Hann gæti eins verið Suður-Þjóðverji, Norður-Frakki eða Mið-Breti eða þá að hann býr í litlum bæ í Austurríki. Vegna sögu okkar,staðsetningu og fámennis í stóru landi, lífshátta og séríslenskrar menningar erum við eins langt frá samnefnara Evrópubúans sem hugsast getur. Auðvitað svipar okkur til íbúa strandhéraða við norðaustur Atlantshaf og auðvitað erum við á nokkuð hraðri leið að alþjóðavæðast á þeirri bylgju sem nú fer um heiminn en evrópsk hugsun er fjarri okkur einkum þegar kemur að peningamálum.

 "Íslenska þjóðarsálin" ber svo sterkan svip, mótuðum af aldanna rás, að hún er auðþekkjanleg hvar sem er. Ef ekki af viðmóti þá af athöfnum. Við vitum öll hver einkenni okkar eru og óþarft að telja þau öll upp en ég vil reyna að skýra atburðarás þessa áratugar í ljósi þess þegar við komumst í nokkuð náin efnahagsleg kynni við Evrópu eftir inngöngu í evrópskt efnahagssvæði í lok síðustu aldar. Þau okkar sem fædd eru fyrir miðja síðustu öld þekkja vel óstöðugleikann í efnahagsmálum, gildi þess að þekkja mann sem þekkir mann, getað veifað réttu flokksskírteini eða þá í stöku tilfelli komist að kjötkötlum fjármagnsins af eigin dugnaði og útsjónarsemi. Ekkert af þessu dugði þó ef óstjórn peningamála setti allt á hliðina og fólk gat því endað engu að síður slippt og snautt.

 Undur og stórmerki gerðust þegar ríkisbankarnir,sem fram að því höfðu ekki stundað mikil kollsteypuviðskipti, komust í hendurnar á einkaaðilum. Þá tók íslenska þjóðarsálin við sér. Erlendir bankar vildu ólmir lána okkur. Við höfðum lánstraust enda alltaf staðið í skilum og lánspeningarnir enduðu oftar en ekki í uppkaupum á fyrirtækjum á meginlandinu. Og svo til allir dönsuðu með. Þetta var séríslenskt. Ef hægt var að fá peninga að láni skildu þeir teknir og þar eru engir undanskildir, hvorki ríkisstjórnir sveitarfélög eða margumræddir einkaaðilar. Ef lánin dygðu ekki skyldi tekin meiri lán og síðan hlyti þetta að reddast!   Nú sitja allir eftiráspekingarnir uppi með sárt ennið sem og margir fleiri sem töpuðu sínu. Pólitískar nornaveiðar eru löngu hafnar og sökudólga hrunsins er enn leitað, sem og afar dýr leit að horfnu fé í formi nála í heysátum skattaparadísa. 

En er þetta ekki einfaldlega sök efnahagslegrar arfleifðar okkar ásamt því að lenda í nýju evrópsku banka- og fjármálaumhverfi ? Hvað gerist í framhaldi þess að við tækjum ESB-skrefið til fulls er síðan með öllu óljóst.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband