29.8.2010 | 14:58
Hvar liggur rót vandans?
Okkur Íslendingum er fátt tamara en stunda skoðanskipti alla daga og kaffæra góð málefni í endalausum útúrsnúningum. Varla erum við komnir að niðurstöðu í einu máli að við tökum ekki til við annað og oft á tíðum vill það fyrra gleymast. Frjó umræða er auðvitað af hinu góða en þeir mörgu ráðamenn sem fylgjast með tíðarandanum eiga fullt í fangi að greina kjarnann frá hisminu. Og velji þeir veginn til umbóta rekast þeir gjarnan á veggi sérhagsmuna- og samtryggingarhópa, ég tala nú ekki um valdablokkir.
Umræðan var komin vel á veg um afnám eða breytingu á lögum um verðtryggingu og við lá að hún kæmi fyrir Alþingi en ef til vill er núna verið að vinna að þingmáli um þau efni. Þegar verðtryggingin var sett á átti hún rétt á sér en á síðustu misserum og árum hefur hún snúist í andhverfu sína, skekkt hagstærðir og í bland við gengishrun og óðabruðl stjórnvalda komið fólki á vonarvöl og stuðlað að landflótta. Það þekkist hvergi að fyrirtæki og fólk geti staðið undir þeim vaxtakjörum sem okkur hefur verið boðið upp það sem af er þessari öld. Nú kastar tólfunum ef bankar eiga að fara að græða á því að Orkuveitan stórhækki gjaldskrána. Sama gildir um erlenda vöru,bensín, kaffi, hvaðeina. Eitt af því örfáa sem gæti tengst vísitölu / verðtryggingu eru launataxtar.Ekki er óeðlilegt að lífeyrisréttindi hækki eða lækki í takt við launaþróun. Verðbólga er eitthvað sem örugglega er beintengt þjóðarframleiðslu. Ef hún er lítil og kraftar landsmanna beinast að einhverju "húmbúkki" fellur allt um sjálft sig eins og nýleg dæmi sanna. Vegna óstjórnar og efnahagsáfalla síðustu ára þarf Orkuveitan á hækkunum að halda. Förum þó varlega þegar kemur að verðtryggingu lána í kjölfarið.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 21:30 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.