9.11.2010 | 13:59
Sjálfbærni landsins - hagnaður og tap á tímum verðtryggingar
Ekki er ofsagt að fjölmargt bjátar á í okkar annars ágæta landi og ekki eru allir á eitt sáttir um leiðina út úr vandanum. Ég staðhæfi að íslensk stjórnvöld hafi ekki í annan tíma staðið frammi fyrir öðrum eins vanda og síðastliðin tvö til þrjú ár. Nokkur jákvæð teikn eru á lofti svo sem minnkandi verðbólga, sem alla jafnan þýðir minnkandi vexti og afborganir. Einnig jákvæður viðskiptahalli um þó nokkurt skeið enda hafa ekki verið fluttar inn dýrar vörur til framkvæmda né annarra nota svo sem flugvélar,skip eða nýir bílar í miklu magni. Kannski er því einmitt núna rétti tíminn til að "núllstilla þjóðfélagið."
Stærstu hagstærðirnar í þjóðarbúskapnum eru ríkisreksturinn annars vegar og atvinnulífið eða einkageirinn hins vegar. Hvorugur aðilinn getur án hins verið. Ríkið sér um að halda þjóðfélaginu gangandi og einkageirinn aflar tekna til að standa undir ríkisbatteríinu. Ríkið stendur þó í tekjuöflun sem sátt er um, á jafn ólíkum sviðum sem áfengis- tóbakssölu jafnt sem raforkusölu. Ríkisstarfsmenn t.d í mennta- og heilbrigðisgeiranum afla ekki tekna en skapa óbein verðmæti sem ekki er hægt að vera án. Ef vel ætti að vera ætti að reka þjóðarskútuna eins og hvern annan togara þar sem laun fylgdu aflahlut. Ríkið, eða útgerðin þarf sitt til fjárfestinga og viðhalds og afkoma hennar og áhafnarinnar fylgja svo síðan því hvernig fiskast.
Þetta þykir efalaust full mikil einföldum í okkar flóknu tilveru þar sem röð mannlegra mistaka hefur á á skömmum tíma kippt fótunum undan þúsundum fjölskyldna hér á landi og gert mörgum ókleyft að komast af, hvað þá að eignast eigið húsnæði. Tiltölulega einfalt er að setja þetta í jöfnu sem yrði eitthvað á þessa leið: Of mikil obinber yfirbygging þ.e. of mikill rekstrarkostnaður hennar samhliða minnkandi tekjum einkageirans er ávísun (= ) á skuldasöfnun ríkisins, aukin vaxtakostnað og í kjölfarið verðbólgu með hækkandi verðtryggðum vöxtum. Á þessu tapar almenningur þ.e. lántakendur en bankar og fjármagnseigendur ásamt lífeyrisþegum hagnast. Þarna tapast meiri hagsmunir fyrir minni og útkoman verður þjóðfélag sem fæstir vilja búa í, þjóðfélag ójafnaðar.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:31 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.