8.12.2010 | 12:10
Ekki er öll vitleysan eins og því á Íbúðalánasjóður í kröggum.
Atburðarás síðustu ára var á þann veg að nú á Íbúðalánasjóður í basli og það er bara mjög eðlilegt og ekki honum einum um að kenna. Hér skulu ástæður raktar; Þegar þjóðin fór á yfirsnúning og allir mögulegir vegir sýndust henni færir fór atburðarás af stað og endaði í fasteignabólu sem sprakk af miklum krafti, eiginlega í andlitið á okkur. Inn í landið streymdi erlent fjármagn á ódýrum vöxtum sem síðan var lánað út á hærri vöxtum auk verðtryggingarinnar illræmdu. Inn í landið streymdi líka dugnaðarfólk, aðallega pólskir iðnaðarmenn "í boði ESB/EES og samkvæmt reglum þess um frjálst flæði vinnuafls"
Verktakar tóku kipp og tóku að byggja í gríð og erg, enda höfðu sveitarstjórnarmenn úthlutað lóðum "alveg vinsti hægri" og talið það vænlegast til að ná árangri í kosningunum 2006. Því miður reyndust lóðirnar langt umfram þörf. Kannski var feillinn sá að menn hugsuðu sér að Pólverjarnir myndu setjast hér að að byggingatörn lokinni og kaupa jafnvel þær íbúðir sem þeir voru nýbúnir að reisa. Svo varð nú ekki, þeir fóru langflestir úr landi enda ekki mikla atvinnu að fá við byggingar eftir að byggingabólan sprakk.
En hvað Íbúðalánasjóð varðar þá er honum skylt að veita lán til nýbygginga, og líka viðhalds, burtséð frá því hvort þörf sé fyrir íbúðarhúsnæðið eður ei. Þetta vita verktakar og þess vegna komust þeir svona langt með húsin ( sem betur fer ) en fóru síðan illa út úr því vegna þess að eignirnar seldust ekki og lentu því í höndum sjóðsins og lánastofnanna. Umframlán bankanna í formi myntkörfulána gengu svo endanlega frá byggingaverktökunum fjárhagslega.
Allt þetta er ein sorgarsaga og ég vona að fólk geti nú lært af reynslunni, sem sagt að fyrirhyggjuleysi og óheft frelsi leiðir til ófarnaðar Nú verðum við að huga að því að koma íbúðunum í gagnið til unga fólksins sem er að hefja búskap. Dæmið verður reiknislega að ganga upp hvort sem um er að ræða leigu eða kaup á húsnæðinu sem ekki er í notkun. Þarna eru mikil verðmæti sem verður að nýta án þess að setja drápsklyfjar á það fólk sem tekur við þeim.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:31 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.