13.9.2011 | 14:50
"Þegar traktorinn stöðvast...
...er úti um matvælaöryggið",sagði prófessorinn og taldi sig hafa slegið öll vopn úr höndum andmælandans. Hvílík öfugmæli. Langt inni í óljósri framtíð, þegar olía jarðar verður uppurin og ef flug- og skipaferðir myndu afleggjast af þeim ástæðum, engin annar orkugjafi tiltækur í hennar stað, þá fyrst er virkileg þörf fyrir að hafa öflugan landbúnað til að tryggja fæðuöryggi landsmanna. En það er óralangt í það að sú sýn rætist ef hún gerir það einhverntíma. Aðrir orkugjafar verða áreiðanlega komnir í stað olíu.
En umræðan um landbúnaðarstefnu ESB,sem nú er ofarlega á baugi í samningaviðræðum og aðildarumsókn við sambandið, hátt verð innlendra afurða, óheftan innflutning vara erlendis frá, hún snýst hvorki um fæðuöryggið né hversu lengi olían endist. Hún snýst frekar um eftirfarandi að mínu mati.
Höfum við nægan gjaldeyrisforða til að kaupa langstærstan hluta matvæla erlendis frá og hefur sú áætlaða upphæð einhvern tíma verið birt?
Verða þau matvæli til lengri tíma litið ódýrari ? Ekki styttast flutningsleiðir til landsins við inngöngu í ESB.
Höfum við efni á að leggja af gjaldeyrisskapandi undirstöðuatvinnuvegi með þúsundum starfa í úrvinnslugreinum ?
Höfum við hag af því að minnka byggð í landinu sem er lika vaxtarbroddurinn í sívaxandi ferðaþjónustu ?
Við viljum gjarnan telja okkur til Evrópuþjóða, enda erum við það, en landfræðilega erum við það tæpast. Það er eðlilegt að meginlandsþjóðir álfunnar stefni að sem mestri sameiningu með sameiginlegri mynt og stjórnskipan. Þeirra landamæri eru oftast huglæg og sjást helst á kortum. Okkar landamæri eru áþreifanleg og mörghundruð mílna breið.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Góður punktur hjá þér Sigurður, Það mætti benda prófessornum á það að Íslenskir bændur hafa búið hér í um það bil 11 aldir, en hafa bara haft diesel knúnar dráttarvéar í um það bil 1 öld, ég held að þeim yrði ekki skotaskuld úr því að bjarga sér án olíunnar hinsvegar held ég að maður eins og prófessorinn yrði algerlega ósjálfbjarga og myndi ekki lifa lengi án aðstoðar annara sem kynnu að bjarga sér við slíkar aðstæður.
Kristján B Kristinsson (IP-tala skráð) 13.9.2011 kl. 19:00
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.