26.10.2011 | 15:20
Hagstjórn á tímamótum
Þeir sem vilja halda í verðtryggingu eða vilja taka upp annan gjaldmiðil í stað krónu eru gjarna þeir sem bera hag fjármagnseigenda og lífeyrissjóða fyrir brjósti. Forystumenn margir hverjir í verkalýðsfélögum draga því frekar tauma lífeyrissjóða en almennra launþega. Þeir ásamt mörgum stjórnmálamönnum sem eru sama sinnis eru einfaldlega að segja; það er ekki hægt að reka þetta þjóðfélag á skynsamlegum nótum með stöðugleika að leiðarljósi og því verður að viðhalda verðtryggingu með gífurlega alvarlegum afleiðingum fyrir almenning. Það kom best í ljós á undanförnum þremur árum.
Stjórnmálamenn jafnt í lands- sem byggðapólitík lofa kjósendum öllu fögru fyrir kosningar til að laða að sér fylgi þótt engin sé innistæða fyrir loforðunum. Verkalýðsleiðtogar og hagsmunafélög fara af stað árvisst til að knýja á um betri laun fyrir sína félagsmenn,enda eru þeir kosnir út á það. Þeir vita sem er að þetta er ávísun á verðbólgu og ekki er innistæða fyrir hækkunum en það er skárra að ávísa á verðryggða okurvexti en að sitja auðum höndum. Svona gengur þessi skollaleikur áfram, áratugum saman og jú, "þetta er vinnan þeirra".
Hruninu 2008 má líkja við manngerðan jarðskjálfta sem kemur þó ekki nema með áratuga hléum en hefur alvarlegar afleiðingar fyrir okkur landsmenn. Mest bitnaði það á þeim sem töpuðu eignum sínum, húsnæði og atvinnu. Ekki er víst að landsmenn geti tekið á móti öðrum slíkum, jafnvel ekki "eftirskjálfta" 2008 hrunsins. Þess vegna er þörf á miklum hagstjórnarlegum framförum og lagfæringum á peningastefnu en ekki áframhaldandi hringavitleysu í skjóli verðtryggingar. Minni aftur á það á það, að verðtrygging lána er séríslenskt fyrirbæri tilkomin vegna viðvarandi lélegrar hagstjórnar sem getur á stundum líka stafað af ófyrirséðum ytri áföllum.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.