1.9.2012 | 20:15
Athafnir í stað orða - 2 grein
Forstjóri Íbúðarlánasjóðs fór mikinn á forsíðu Fréttablaðsins í dag. Fimmþúsund manns hafa ekki staðið í skilum, ég þar á meðal. Í fyrri grein minni rakti ég hversu verðbætur ofan á vexti hafa leikið skuldara grátt og hve erfitt er að vinda ofan af þessu kerfi. En nú er bara komið gott, svo ég taki mér orð forstjórans í munn. Við höfum gengið í gegn um hrun sem ekki sér fyrir endan á þótt komin séu 4 ár. Það hefur verið talað um að " slá skjaldborg um heimilin " færa niður skuldir þeirra,leiðrétta verðbólguskotið frá 2008 og 2009. Ekkert af þessu hefur verið gert af ríkisstjórn og Alþingi, einungis lengt í hengingarólum. Upphaf og endir fjárhagsvandræða fólks er verðtryggingin ofan á háa vexti sem heimili og fyrirtæki geta ekki staðið undir.
En hvers vegna að láta þetta bitna á ÍLS, stofnun sem þorra landsmanna er vel við ? Vegna þess að baki hennar stendur löggjafinn sem viðheldur verðtryggingunni og þar með, vil ég segja, verðbólgunni en fjármálastofnanir hafa af henni beina hagsmuni. Hvers vegna er ekki löngu búið að afnema hana. Lauslega áætlað hafa afborganir af lánum hækkað um 69 % á örfáum misserum. Lán sem fylgdi íbúð sem keypt var fyrir 19 árum og voru um 2.3 milljónir 1993 standa nú í tæpum 5 milljónum en lánstíminn er einungis hálfnaður og búið er að greiða nærri þrefalt upphaflegt lán.
Á þessu skattaári hefur verið dregið verulega úr vaxtabótum og eru nú engar hjá mér en hafa verið töluverðar undanfarin ár. ÍLS stendur illa aðallega vegna þess að honum er skylt að veita lán út á byggingar sem óvíst er hvort seljist. Þótt byggingarkostnaður sé jafnvel hærri á landsbyggðinni en í þéttbýlinu er verðmæti þeirra mun minna. Nóg er líka um óselt húsnæði á Höfuðborgarsvæðinu sem veldur sjóðnum og öðrum fjármálastofnunum vandræðum
Byggingabólan í aðdraganda hrunsins bitnar enn á okkur öllum en bankarnir virðast halda sjó með uppkaupum á húsnæði og tala upp um leið fasteignaverðið. Það getur komið þeim skuldsettustu vel en varla er innistæða fyrir því ef erfitt reynist að finna kaupendur sem standast hið illræmda greiðslumat. Að endingu vil ég benda á að Það er hægur vandi að fá verðtrygginguna sem bætt er við samningsvexti dæmda ógilda. Ef ekki fyrir innlendum dómstólum, héraðs- og hæstarétti þá fyrir samevrópskum dómsstólum þar sem þessi tilhögun þekkist alls ekki. Læt ég þetta nægja að sinni.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.