10.12.2012 | 15:45
Ótímabærar yfirlýsingar Guðbjarts um leiguíbúðir á vegum ÍLS
Kaupendur íbúðanna misstu þær í hendur Íbúðalánasjóðs vegna vanskila og sama á við um íbúðir byggingafélaganna vegna breytinga á fasteignamarkaði og vegna offramboðs. Það er talað um 1600 íbúðir og aðrar 1500 " á leiðinni" ! Þá eru ótaldar allar þær íbúðir sem bankarnir hafa leyst til sín og ganga nú kaupum og sölum og þykja góð fjárfesting. En þeir sem lögðu "blóð svita og tár" í að eignast þak yfir höfuðið eru hinir eiginlegu eigendur en misstu húsnæðið vegna óðaverðbólgu-skots fyrir og eftir hrun sem breyttist í eignaupptöku. Og þeir sem enn halda íbúðum en eru skuldsettar eiga í miklu basli. Og hvers vegna er allur þessi forsendubrestur ? Eru það ekki sjálfsögð mannréttindi hér sem annarsstaðar að fólk geti eignast eigið húsnæði eða leigt það á sanngjörnum og viðráðanlegum kjörum ? Verðtrygging húsnæðislána hefur gert ógæfumunin. Á tímabili botnfraus fasteignamarkaðurinn þar til bankarnir hófu að bjóða óverðtryggð lán. Nú verður varla snúið til baka með óverðtryggð lán en stóra spurningin er hvað ÍLS gerir. Verður honum breytt í leigufélag með þær íbúðir sem hann hefur eignast og þá á vafasömum forsendum?
Loksins eru þrjú dómsmál hafin vegna verðtryggingar á útlán sem talin eru brjóta neytendalöggjöf hér sem og innan EES. Ógjörningur er að ímynda sér áhrif af niðurstöðu dóms verði hann jákvæður fyrir þá, sem misst hafa húsnæði sitt en einnig þeirra sem hafa náð að standa í skilum, dæmist verðtryggingákvæði íbúðalána ólöglegt.
Sú krafa hefur verið lengi uppi að um 43 % umframhækkun höfuðstóls og vaxta frá 2007 verði leiðrétt en stjórnvöld hafa hummað það fram af sér enda risavaxið viðfangsefni. Það er því hugsanlegt að íbúðir sem ÍLS hyggst leigja út komist aftur í hendur fyrri eigenda. Það er rétt sem bent hefur verið á, það verður að stokka upp húsnæðismál frá grunni en áður verður að leysa vanda síðustu ára og þeirra sem misst hafa eignir sínar.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:23 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.