10.5.2008 | 18:29
Hvað er til bragðs ?
Við erum stödd í miðri lendingu. Álitsgjafa greinir á um hvurs lags hún sé. Löngu fyrir lendingu var okkur tjáð að hún yrði mjúk og ekkert að óttast. Að vísu spurðu margir sig hvort yfirleitt þyrfti nokkuð að lenda. Væri bara ekki best að vera ofar skýjum og svífa áfram á þeim rósrauðum. Á stöðugri uppleið á öllum samanburðartölum og gröfum. Við náðum því marki að verða heimsins hamingjusamasta þjóð og gott ef ekki var ,komumst upp fyrir Norðmenn á lífskjaralistanum þar sem við höfum nokkuð lengi setið í efstu sætum. Jú, jú, allt sem fer upp kemur niður aftur og því er samanburður við flugvélar nærtækur. Og nú er komið að áhöfninni sem fólkið kaus yfir sig til að stýra skútunni inn til lendingar, samlíking sem gjarnan var notuð en hefur nú yfirfærst á flugvélar, sem fólki finnst nærtækara að nota til samlíkingar. Við erum sem sagt í vályndum veðrum óðaverðbólgu,dýrtíðar og gengishraps og mjög svo óhagstæðum viðskiptajöfnuði. En við verðum að lenda,verðum að koma okkur niður á jörðina.
En sleppum nú samlíkingum þótt skemmtilegar séu og tölum tæpitungulaust. Eitt þurfa ráðamenn að skilja. Það eru ekki þeir,sem eru að taka lánin á heimsins hæstu vöxtum sem eru valdir að viðskiptahallanum,þau eru ekki að spandýra þeim lánum í óþarfa. Kannski tóku margir sér fullstór lán þegar þau buðust og voru heldur flottir á því. Ef Íslendingar eignast peninga, eða taka þá að láni, þá eyða þeir þeim. Í handónýt hlutabréf ef þeim dettur ekki eitthvað annað i hug. Í þessu þjóðfélagi eru mjög margir sem hafa það mjög gott og hafa það eflaust áfram, en það eru líka margir sem ekki geta fótað sig í þessu landi dýrtiðar og misskiptingar. Og þá á ég fyrst og fremst við hvað hlýtur að vera erfitt fyrir unga fólkið að koma sér fyrir, kaupa sér húsnæði og þjónustu nauðsynjar sem orðnar eru allt of dýrar. Þjóðarsátt hlýtur að snúast um að gíra niður kaupgjald og verðlag. Ef það tekst ekki verður að fjölga skattþrepum. Fjármagnstekjuskattur verður líka að vera þrepaskiptur. Auk þess verður bankakerfið, lífeyrissjóðirnir og þeir sem vasast í útrásarverkefnum, að tileinka sér sem móttó að "það sem græðist á Íslandi verður kyrrt á Íslandi" Góðir samfarþegar, við fljúgum eða siglum inn til lendingar.Við getum víst ekki treyst á aðra en áhöfnina sem við kusum að lenda farsællega,en sem betur fer líka okkur sjálf þeim til leiðsagnar.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.