30.11.2008 | 16:22
LJÓS Í MYRKRINU ?
Það eru margir samverkandi þættir sem hafa sett okkur út á kaldan klakann. Ég nefni örfáa: Það er galli við lýðræðið hve langan tíma það tekur fyrir fólk, sem lengi hefur verið í stjórnarandstöðu, að venjast breyttum aðstæðum. Það eru mikil umskipti að hafa verið ábyrgðarlausir gagnrýnendur og taka síðan við stjórnartaumum. Of langan tíma tekur að venjast nýjum aðstæðum og nýjum samstarfsflokki (-flokkum ) og allt fer í hægagang á meðan, einmitt þegar kannski mest ríður á að stjórna af röggsemi. Þetta á bæði við um ríkis- og borgarstjórn eins og dæmin sanna.
Fyrirbærið einkaframkvæmd er annað. Sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu gáfu henni lausan tauminn án nokkurra hamla og framkvæmdirnar hafa sett með öðru bankana á hliðina. Næstum óheftur aðgangur að lánsfé í bönkunum í bland við framkvædagleði og gróðavon er eitruð samsetning, sérstaklega þegar stjórnir sveitarfélaganna koma sér ekki saman um hvað sé eðlilegt framboð af lóðum miðað við eftirspurn. Þessu sér stað víða á höfuðborgarsvæðinu og er ekki vel fallið til að minnka barlóminn í landanum þegar hann sér og veit að allt er þetta gert á dýrum lánum.
En nú vil ég koma með jákvætt innlegg í umræðuna. Ég átti leið sem oftar um Borgartúnið í dag og þar gefur að líta 19 hæða skrifstofuturn sem kominn er vel á veg. Þar vinna menn hörðum höndum við að glerja hverja hæðina á fætur annarri um hávetur til að grind byggingarinnar standi ekki ber og sem minnismerki um forna og ofvaxna drauma. Aðrar einkaframkvæmdir sem eru að komast í hann krappann eru Tónlistarhöllin og Nýja HR byggingin við Öskjuhlíð. Innskot: Við mörg munum þá tíma þegar það tók fjölmörg ár að reisa Þjóðarbókhlöðuna / Landsbókasafnsbygginguna. Kannski er byggingin dæmi um þann framkvæmdahraða sem ríkið ræður við að fjármagna hverju sinni. Ég sleppi því að minnast á Hátæknisjúkrahúsið og Sundabrautina,sem ráðamenn eru búnir að eyða í stórfé en sjá vonandi að við höfum ekki efni á og allra síst sem einkaframkvæmd.
En aftur að Borgartúninu og Höfðatorgi á jákvæðum nótum. Ég skora á borgaryfirvöld að leyfa og hvetja framkvæmdaraðilann til að breyta turninum háa í hótelbyggingu, með aðkomu fjárfesta og / eða borgarsjóðs og vinna áfram að fullum krafti til að koma honum í gagnið, jafnvel næstasumar. Staðsetningin er afbragðsgóð en sem skrifstofubygging, almáttugur ! Verðum við ekki að viðhalda smá bjartsýni og treysta á að ferðaþjónustan skili okkur arði, og byggingar í tengslum við hana, eiga að hafa forgang og skapa atvinnu fyrir þá sem nú eru að missa hana.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt 13.12.2008 kl. 14:22 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.