18.1.2009 | 11:08
Tveir turnar
Margt má segja um flokkana sem nú sitja sem fastast við stjórnvölinn og virðast ætla að sitja áfram, hvað sem á dynur. Fylgi stjórnar í könnunum er um 30 prósent og stjórnarmeirihlutinn á þingi er því alfarið á skjön við þessa útkomu. Á þeirra vakt var siglt í strand og er nema von að þeir séu með fangið fullt af verkefnum á strandstað. En þjóðin treystir þeim varla til þess frekar en skipstjóra sem bar ábyrgð á óförum síns skips og vill fá aðra til verksins. Vonast hún því til að kosningar verði sem fyrst. Annar flokkurinn,sá stærri er lúinn eftir langa stjórnarsetu, flokkur sem lagði alfarið traust sitt á lögmál hins frjálsa markaðar og stýrði eftir þeim kompás. Sá kompás hringsnýst núna og því er flokkurinn stefnulaus . Vonandi kemur þó eitthvað bitastætt frá landsfundi annað en ályktun um aðildarviðræður við ESB.
Hinn flokkurinn,sá minni sat sleitulaust í stjórnarandstöðu jafnlengi og hinn var við völd. Stefndi hann ótrauður á samræðustjórnmál kæmist hann til valda. Þegar kom að því færðist yfir hann værð valdhafans og hann uggði ekki að sér. Enda er ekki ætlast til þess að óveðursský hlaðist upp strax á fyrstu mánuðum hveitibrauðsdaga. Helstu rök þeirra með þrásetu er, að ekki taki betra við fari þeir frá. Því fær víst enginn svarað.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.