4.7.2009 | 11:36
Frá Evu Joly til Alþýðuhallar
Ekki er öfundsvert hlutskiptið hennar Evu að hafa uppá orsökum íslenska bankahrunsins og hvort þar hafi verið framið eitthvað kriminelt,sem síðan hefur haft þær afleiðingar að ekkert minna en þjóðargjaldþrot er handan horns. Ég sé hana fyrir mér,sérstaklega hafi hún fengið að sjá alla Spaugstofuþætti síðustu ára í norskri eða franskri þýðingu. Þar mátti sjá, næstum í beinni útsendingu hvað var að gerast á hverjum tíma. Ég sé hana fyrir mér ljúka langri og kostnaðarsamri skýrslu, þreytuleg á svip með orðunum; " Ég álít að á fyrsta tug nýrrar aldar hafi íslenska þjóðríkið gengið gjörsamlega af göflunum og verkefni mitt hafi frekar átt að vinnast af þjóðfélagsfræðingum og þjóðarsálarfræðingum ef þá er einhversstaðar að finna."
Hverjum öðrum en okkur hefði dottið í hug að að reisa hér Tónlistar-og ráðstefnuhús í einkaframkvæmd að verðmæti 13 til 30 milljarða ef allt er með talið. Ef þú selur 1000 miða á 3000 krónur hvern dag ársins leggja tekjurnar sig á rúman milljarð en einungis 156 milljónir náir þú að fylla salinn vikulega og það segir lítið upp í kostnað. Og nú nefna menn "húsið",sem reyndar er vannefni, Alþýðuhöll eða Public Palace uppá enska tungu. Að vísu verður það alþýðan sem fyrir það greiðir, en má ég nú biðja um þjálla nafn. Helst þurfa útlendingar að geta sagt þetta skammlaust, því að ætlunin er að þeir verði þar mikið á ferðinni.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.