Aðeins um skipulagsmál og nýja samgöngumiðstöð

Í allri orrahríðinni í aðdraganda kosninga er skellt af stað verkefninu samgöngumiðstöð. Bygging sem búið er að vera í deiglunni í nokkurn tíma og er nú sett af stað korteri fyrir kosningar og ber keim af kosningaloforði í mynd atvinnuskapandi verkefnis,sem er gott og gilt á þessum síðustu og verstu. Það er rétt okkur vantar nýja flugstöð í stað þeirrar gömlu við Skerjafjörðinn en við höfum mjög vel staðsetta Umferðarmiðstöð þar sem BSÍ hefur staðið og stendur enn og þjónar bæði ferðum til Keflavíkurflugvallar og langferðabílum innanlands. Er auk þess í góðu göngufæri við miðbæinn og óspart notað af ferðafólki ásamt tengingu við leigubíla.

 Ef sameina á þetta tvennt í námunda við Valsvöllinn líst mér ekki á blikuna. Hafið þið, á góðum sumardegi og jafnvel að vetrarlagi, séð bílabreiðurnar við flugstöðina núverandi. Þangað koma nefnilega farþegar,ólíkt því sem gerist í útlöndum, á bílum og skilja þá eftir í lengri tíma auk þeirra sem vinna við flugið, en mæta ekki í lestum eða með strætisvögnum. Og þar að auki á þetta að vera til bráðabrigða! Að auki tel ég að umferðarlega sé þessi staðsetning langt frá því að vera fullhugsuð.

Ég legg til og vona að borgaryfirvöld hætti að kokgleypa svona atvinnuskapandi tillögur í aðdraganda kosninga, en halda  þess í stað BSÍ umferðarmiðstöðinni og byggi nýja flugstöð við hlið þeirrar gömlu við Skerjafjörðin. Sú bygging fengi síðan nýtt hlutverk þegar og ef flugvöllurinn víkur úr Vatnsmýrinni. Næg eru nú skipulagsslysin samt.


Hver verður svo eftirtekjan ?

Við Íslendingar höfum ekki séð hann svartari í langan tíma. Fyrir rúmu hálfu ári vissum við ekki betur en að allt væri í stakasta lagi. Nú sjáum við ekki til botns í skuldafeninu. Sem betur fer tókst að mynda nýja stjórn sem gat tekið að sér björgunaraðgerðir eftir strand þjóðarskútunnar. Það hefur aldrei gefist vel að þeir sem eftir standa hálflamaðir á strandstað taki þau verkefni að sér. Þau hafa þó verðið að mestu leyti hjálpsöm, undanskilið er málþófið um stjórnarskrána og stjórnlagaþingið sem leiðir til þess að kosningabaráttan verður í skötulíki, en í dag eru tæpar þrjár vikur  til þeirra.

Samt er mér efst í huga að allur sá kostnaður sem við leggjum nú út í til að "rannsaka" ástæður bankahrunsins sem þarf víst að rekja allt til einkavæðingar þeirra. Að gígantísk töp bankanna, skildra og óskildra félaga skili sér til baka í formi skatta eða hárra sekta. Ekki sem kostnaðarsamar skýrslur geymdar á Þjóðskjalasafni eða léttvægir dómar að undangengnum kostnaðarsömum réttarhöldum. Ég tek undir með Evu Joly. "Follow the money" Hvað varð um allt þetta fé sem tapaðist og reynum að fremsta megni að endurheimta það. Það er óhugsandi að tugmilljarðar króna hverfi út í buskann á dagstund vegna vanhugsaðra fjárfestinga.


Á stjórnlagaþingi

 Í Wikipediu stendur eftirfarandi um stjórnlagaþing.

  "Stjórnlagaþing er samkoma manna, sem stofnað er til í þeim tilgangi að vinna að stjórnarskrá ríkis. Getur vinnan miðað að því að búa til annaðhvort alveg nýja stjórnarskrá eða breyta eldri stjórnarskrá.Í lögfræði er talað um að stjórnarskrárgjafinn setji stjórnskipunarlög (þ.e. stjórnarskrána) en slíkt er ekki á færi löggjafarvaldsins, framkvæmdarvaldsins eða dómsvaldsins. Væri stjórnlagaþing dæmi um slíkan stjórnarskrárgjafa.Stjórnlagaþing hefur aldrei verið haldið á Íslandi, en slíkar samkomur hafa þekkst í öðrum löndum. Þannig má nefna að 1848 var kosið til stjórnlagaþings í Danmörku og var útkoma þeirrar vinnu stjórnarskrá, sem afnam einræði í Danmörku og kom á þingbundinni konungsstjórn."

Nú sýnist mér fjármálaráðuneytið heldur betur hafa reiknað stjórnlagaþingið út af borðinu og þá hvers vegna. Ekki nóg með það að áætla tímaramman allt að tveimur árum, 63 hálaunamenn með marga aðstoðarmenn og glæsihöll um battaríið. Það er held ég hvergi til forskrift að slíku þingi hvorki um fjölda þingmanna né um tímarammann..Og til stendur að kjósa þetta fólk af þjóðinni fyrst til að byrja með og síðan kjósa um niðurstöðina að henni fenginni. Ég hef nú eiginlega meiri áhyggjur af því að þessir 63 hálaunaaðilar verði dauðir úr leiðindum innan árs, hvað þá að þeir haldi þetta út í 24 mánuði. 

Ég hefði haldið að þessu mætti hespa af svona á tveimur sumrum og nýta til þess skólahúsnæði,sem stendur autt. Um 30 manns dygðu og fyrir mína parta treysti ég háskóla-og framhaldsskólakennurum,sem væru annað hvort kosnir af þjóðinni eða með tilviljanakenndu úrtaki,til að taka að sér verkefnið. Og fjármálaráðuneytinu vil ég benda á að árið 2007 er liðið, nú er árið 2009. Í hópi þeirra 17.000 sem nú eru án atvinnu má einnig finna mjög hæft fólk, sem sætti sig við lægri laun og gætu sinnt verkinu með sóma. Gætu milljarðarnir tveir kannski orðið að 300 milljónum?

 

 

 


Litið til framtíðar

 "Það er allt að gerast" er viðkvæðið í dag og orðið "rússibanareið" er líka viðhaft þegar atburðarásin krefst þess að fólk haldi sér fast og allt er í óvissu. Rússíbaninn endar þó alltaf á sama stað og hann byrjaði fari hann ekki af sporinu. Hvað með okkur í farþegasætunum ? Hvenær verður ástandið aftur eðlilegt, og hvað þarf að gerast til þess að að svo verði? Höfum við þolinmæðina til langs tíma og kjósum við yfir okkur nógu hæft fólk til að leiða okkur að viðunandi ástandi? Hver eru  viðunandi lífskjör sem miðast við þjóðarframleiðslu og er ekki haldið uppi af erlendum lántökum eins og var í sýndarvelmegun síðustu ára?

BRÚÐKAUP Í CAIRO

Ég brá mér til Egyptalands í viku og kom heim sl.fimmtudag. Erindið var nú ekki af verri endanum en brúðkaupsveisla dóttur minnar var þar haldin á stað sem nefnist Dreamland og er í nýrri borg við hlið Caíro sem heitir 6th of oktober. Þar er þessi fallega bygging sem er í myndaalbúminu mínu ásamt auðvitað dótturinni og tengdasyninum. Afbragðsmaður og öll hansfjölskylda svo að við getum stolt  kallað hann næsta "tengdason Íslands" af mörgum.

Að koma svo heim er auðvitað smáátak, heim í "vitleysuna" Bara að grínast, hér eru mörg verk að vinna á öllum sviðum og við verðum bara að vinna okkur út úr þeim og alls ekki missa móðinn í því verkefni. Hvet ykkur til að lesa bloggið mitt þar eru ýmsar ábendingar!


Mótmælahlé er nauðsyn

Það er alger nauðsyn að þeir sem telja sig friðsama mótmælendur haldi sig heima og haldi sig frá miðbænum. Vonandi líka þeir sem hafa haft sig mest í frammi og skaðað bæði fólk og eignir.

Lýðræðið verður að hafa sinn gang, ekki viljum við að hér ríki svo stjórnleysi auk alls þess sem á undan er gengið. Öllum kröfum hefur verið komið á framfæri og nú er það þeirra sem á Alþingi sitja

að leysa málin. Á meðan verða þeir að fá frið. Vona að friðsamt fólk finni þetta sjálft og að sagan síðustu sólarhringa endurtaki sig ekki. Lögreglan er okkar löggæsla ekki óeirðasveit.


Tveir turnar

Margt má segja um flokkana sem nú sitja sem fastast við stjórnvölinn og virðast ætla að sitja áfram, hvað sem á dynur. Fylgi stjórnar í könnunum er um 30 prósent og stjórnarmeirihlutinn á þingi er því alfarið á skjön við þessa útkomu. Á þeirra vakt var siglt í strand og er nema von að þeir séu með fangið fullt af verkefnum á strandstað. En þjóðin treystir þeim varla til þess frekar en skipstjóra sem bar ábyrgð á óförum síns skips og vill fá aðra til verksins. Vonast hún því til að kosningar verði sem fyrst. Annar flokkurinn,sá stærri er lúinn eftir langa stjórnarsetu, flokkur sem lagði  alfarið traust sitt á lögmál hins frjálsa markaðar og stýrði eftir þeim kompás. Sá kompás hringsnýst núna og því er flokkurinn stefnulaus . Vonandi kemur þó eitthvað bitastætt frá landsfundi annað en ályktun um aðildarviðræður við ESB.

Hinn flokkurinn,sá minni  sat sleitulaust í stjórnarandstöðu jafnlengi og hinn var við völd. Stefndi hann ótrauður á samræðustjórnmál kæmist hann til valda. Þegar kom að því færðist yfir hann værð valdhafans og hann uggði ekki að sér. Enda er ekki ætlast til þess að óveðursský hlaðist upp strax á fyrstu mánuðum hveitibrauðsdaga. Helstu rök þeirra með þrásetu er, að ekki taki betra við fari þeir frá. Því fær víst enginn svarað.


Evran er of dýru verði keypt.Hvað með sterlingspundið ?

Langflestir eru inná því að krónan er ekki framtíðargjaldmiðill okkar Íslendinga. Evran fæst ekki tekin upp einhliða nema í óþökk Evrópusambandsins en stjórnarflokkarnir eru þó í óða önn að fara að athuga hvort eigi nú ekki að fara að athuga með aðildarumsókn. Ég er svo handviss um að þjóðin muni fella inngönguna  þegar hún sér kostina og gallana í þjóðaratkvæðagreiðslu, að allt þetta ESB-tal er bara margra ára tímaeyðsla. En það er nú nöturlegt ef Samfylkingin nær að svínbeygja Sjálfstæðisflokkinn af leið, bara til að halda lífi í þessari óvinsælu stjórn.

En aftur að gjaldmiðlinum og þá væri nú ekki verra að stjórnin gerði vitrænar athuganir á því hvað er í boði. Þessir eru kostirnir:

1. Halda í hálfónýta krónu og henni samhliða óheyrilegir vextir, óðaverðbólga og höft.

2. Evran, hana má ekki taka upp nema í óþökk ESB, en fordæmið frá Svartfjallalandi gefur okkur þó smá von með það.

3. Norska krónan. Við eigum margt sameiginlegt með Norðmönnum, þó helst það að vera með þeim í EES og utan við ESB. Hefur eitthvað verið látið á það reyna að taka upp norska krónu. Eða er látið duga neikvætt svar forsætisráðherra þeirra við spurningu blaðamanns um það efni.

4. Dollarinn, er hann ekki fullfjarlægur okkur ?

5. og síðasta. Pundið. Við sitjum í súpunni með Bretum, okkar helsta viðskiptalandi. Eftir er að semja við þá og gera upp eignir og skuldir a.m.k. bankanna. Vonandi höldum við öðrum  eignum þar líka ,þannig að fólkið sem í þeim fyrirtækjum  vinnur,um 65.000 manns, haldi vinnunni.  Er ekki unnt að athuga þann kost  í leiðinni þegar kemur að samnings- og uppgjörsmálum í því, sem breskir kölluðu svo hnittilega í oktober, The cold war. Minni svo á að það þarf að breyta stjórnarskrá Íslands til að taka upp annan gjaldmiðil.

 

 


.....og nú að fangelsismálum.

Þegar saman fer mikill skortur á auknu rými fyrir afbrotamenn, peningaskortur og mikill niðurskurður hjá ríkinu,er þá ekki rétt að leita annarra og ódýrari leiða í stað aðgerðarleysis.
Hvað með þær byggingar sem ríkið "fékk gefins" þegar herinn yfirgaf landið?
Sem sagt gamla varnarsvæðið.
Er ekki unnt að breyta þar bygginum í afplánunar eða gæsluvarðhaldsfangelsi. Er ekki jafnvel eldri fangelsisbygging á svæðinu sem eitt sinn var nýtt af Bandaríkjamönnum?
Þarna var nýlega skellt upp háskóla og þótti engum mikið. Hvað með að koma þar upp þeirri aðstöðu sem ég nefndi.
Er ekki í rauninni að skapast neyðarástand í fangelsismálum ? Auk þess er á Suðurnesjum  mikið atvinnuleysi og því mikil þörf  fyrir ný störf.

Að drepa máli á dreif

Ekki er nóg með að "okkur íslendinga setji hljóða er við heyrum rök" heldur drepum við umræðunni á dreif þegar hún ætti að snúast um aðsteðjandi vandamál sem krefjast skjótra ákvarðanna.

Á þetta jafnt við um pólitíkusa sem skríbenta fjölmiðlanna Dæmi 1. Í síðustu borgarstjórnarkosningum fór mikill tími umræðnanna hjá frambjóðendum og fleirum um hvort Reykjavíkurflugvöllur ætti að vera eða fara. Þó var búið að ákveða, meira að segja í lýðræðislegum kosningum, að hann yrði á sínum stað til 2016. Dæmi 2. Nú þegar mest á ríður að bjarga, allt að því þjóðargjaldþroti með lögsókn á hendur Bretum vegna bankahrunsins, nú eða að taka upp nýjan gjaldmiðil, þá fer umræðan að snúast um inngöngu í ESB. Nokkuð sem gæti orðið að veruleika eftir 5-10 ár. Getur ekki einhver frjálshuga þingmaður borið fram tillögu á þann veg að nú verði málum við Breta komið á hreint. Frestur er að mér skilst til 7.janúar 2009. Annað hvort verður sú tillaga samþykkt eða felld. Eða er Alþingi einungis afgreiðslustofnun ríkisstjórnar?


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband