Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Hrunráðherra lætur ekki segjast

Það er ekkert grín að sitja uppi með ráðherra sem hefur á undanförnum árum eytt tugum ef ekki hundruðum milljarða í óarðbærar samgönguframkvæmdir. Þar af stærsti hlutinn í hans fámenna kjördæmi. Að vera með tvö risajarðgöng í gangi á sama tíma nær engri átt. Nú er hann kannski búinn að átta sig á því að það eru engir peningar til eins og var 2007 og þá er bara hafist handa við að úthluta verkefnum sem fjármögnuð verða  með vonarpeningum lífeyrissjóðanna. Á meðan lepja höfuðborgarbúar margir dauðann úr skel. Samgöngumiðstöðina skal staðsetja úti í mýri hvað sem tautar og raular og festir hún þar með flugvöllinn of mikið í sessi. Við Reykvíkingar viljum fá að ráða þessu og viljum,ef ekki er hægt að fá borgaryfirvöld í lið með okkur,kjósa um þetta beinni kosningu. Satt að segja hélt ég að það væri búið að koma vitinu fyrir hann.


Að standa sig fyrir sinn flokk

Ástand þjóðfélagsins þá mánuði sem liðnir eru frá hruni einkabankanna og reyndar flestra fjármálastofnananna á sér engan samanburð í Íslandssögunni. Kröftug mótmæli enduðu með stjórnarslitum þeirra flokka sem stóðu hina margumtöluðu vakt í aðdraganda hrunsins sem og eftirleik þess.

 Síðan birtust Icesave skuldirnar smám saman. Á líkan hátt og borgarís sem rekur að landi, fyrst sem meinlaus toppurinn í fjarska, en við ströndina er hann orðinn risavaxinn, ógnvekjandi og óviðráðanlegur. Kannski má líkja þessu við Sturlungaöld, nema að nú flýtur ekki blóð. Höfðingjar bárust þá á banaspjót um yfirráðin og að endingu gekk þjóðin Noregskonungi á hönd. Kannski fyrst og fremst til að koma í veg fyrir meira mannfall. Síðan eru liðnar sjö og hálf öld og höfum við haldið friðinn að mestu. Í staðinn tók fólk að stunda þrætubókarlist hvers konar og valdabrölt.

 Að fengnu sjálfstæði með almennum kosningum urðu átökin á pólitíska sviðinu eins hatrömm og hugsast getur. Persónuleg, óvægin og ætíð háð í návígi til þess að skapa sínum flokki sem besta stöðu og skipa stefnumálum hans í öndvegi.
Við höfum blessunarlega að langmestu verið laus við bein hernaðarátök en ef við sækjum samlíkingu við þau má segja að við stöndum í stríði. Alla vega fjárhagslegu við aðrar þjóðir. Á meðan ríkir hér borgarastyrjöld innanlands, alla vega leit að sökudólgum og ábyrgðarmönnum hrunsins og að þeim sem fóru á svig við lög og reglur. Á meðan vill rúmur  þriðjungur þjóðarinnar draga okkur okkur hina langleiðina inn í Evrópusambandið þar sem býður okkar 500 miljóna manna ríkjasamband. Þetta sama samband, sem við, með aðild okkar að EES í bland við eigin sofandahátt og aðgátsleysi, kom okkur í þessa stöðu sem við erum nú í. Á sama tíma  gengur hver í annars skrokk í sölum Alþingis og þá helst í nafni og með hag síns flokks að helsta markmiði. Ekki þarf mikinn hernaðarfræðing til að sjá að þetta er vonlaus vígstaða.
Við verðum sem fyrst að breyta stöðinni okkur í vil.

   


Tveir kostir, báðir slæmir

Nú eru ESB viðræður komnar í gang með tilheyrandi kostnaði í boði 30-40 prósenta þjóðarinnar. Harðsnúið samningalið ætlar að ná fínum samningum. ESB fulltrúi setur evruna efst á gulrótina og segir að hún minnki atvinnuleysi. Vafasamt í ljósi 25 % atvinnuleysis á Spáni þar sem hún hefur líklegast leitt til þessa mikla atvinnuleysis. Lækkun krónunnar og verðbólga er afleiðing óstjórnar og bankahruns. Og það kostar okkur mikið. Fyrst var fólk á ofurlaunum við að koma okkur í þessa aðstöðu og spanaði upp laun allra hinna, sem var fyrst og fremst mætt með erlendum lántökum.    Nú er fólk á ofurlaunum við að greina og komast fyrir um rót vandans og hafa upp á þeim sem hugsanlega frömdu eitthvað saknæmt. Á meðan er hér allt í hönk og helst litið til evrópskrar ölmusu og styrkja. Að einangra landið og segja EES og ESB að fara lönd og leið er heldur ekki vænlegt.

 Ríkisvaldið er stöðugt að fá fyrirtækin yfirskuldsettu upp í fangið í gegnum eignarhald á bönkunum og því gildir þessi setning sem ég las í Time magazine eftir yfirtöku ríkisins á föllnum bönkum í USA á síðasta ári; " Húrra fyrir þinginu, það hefur nú sannað að við höfum sósialisma fyrir þá ríku og kapitalisma fyrir okkur hina, almennu þegnana."


Ótrúleg niðurstaða í dómsmáli

Ég renndi yfir frétt á netinu í gær. Kona höfðar mál vegna þess að tengdaforeldrar brutust inn í íbúð hennar og tóku þaðan hluti  sem tilheyrðu henni og /eða látins eiginmanns eða sambýlismanns. Konan kærði en tapaði málinu. Henni var dæmt að greiða 1.620.000.- í málskostnað,  EINA MILLJÓN OG RÚMAR SEXHUNDRUÐ ÞÚSUND KRÓNUR ! Niðurstaðan sjálf, en ég hef ekki kynnt mér málavöxtu aðra en þá sem voru í fréttinni, finnst mér með ólíkindum. En vegna málkostnaðarins varð mér svo heitt í hamsi að mér varð hugsað til áhaldanna í eldhússkápnum og að nú væri ástæða að taka þau fram;  Á HVAÐA PLÁNETU OG Á HVAÐA TÍMA ERU ÞEIR LÖGFRÆÐINGAR STADDIR SEM LEGGJA FRAM SVONA REIKNINGA OG ÞEIR SEM LÍKLEGAST MUNU SAMÞYKKJA ÞÁ ? !!


Sparnaður í heilbrigðiskerfinu ?

Heilbrigðiskerfið okkar er dýrt, rándýrt. En þegar á að spara er úr vöndu að ráða. Nú er fyrirhuguð fækkun starfsfólks á Landspítala, LHS og jafnframt að leggja niður eitt stykki skurðstofusjúkrahús í Hafnarfirði í nafni hagræðingar. Er verið að segja okkur að hægt sé að komast af án starfskrafta þessa fólks? Ef segja á upp 400-500 manns af um 5000 manna starfsliði vegna fjárskorts ríkisins er þá ekki miklu nær að ná samningum um lækkun launa allra starfsmanna um      8-10 af hundraði? Ríkissjóður nær þannig fram sama sparnaði. Ef segja á upp öllum þessum fjölda sem hefur varla að öðru að hverfa þá er tæpast ástæða til halda áfram að mennta fólk í samskonar störf og lögð verða niður. Það má eins bíða eftir að fólkið komi aftur til starfa þegar hagur ríkis og landsmanna vænkast.

 


Er atvinnubótavinna þjóðhagslega arðbær þegar ekkert er til í kassanum?

Við höfum auðvitað lifað langt um efni fram undanfarin ár og dansað hringdansa og vikivaka umhverfis gullkálfinn. Og nú er margt stopp og ekki furða. Það er grátlegt að það sem við erum góðir í, t.d. byggingastarfsemi og framkvæmdir ýmiskonar hafi stöðvast vegna þess að fjármagn finnst ekki eða þá að yfirdrifið hefur verið byggt og framkvæmt. Kannski má segja að "betra sé illt að gera en ekkert" en fjölmargir hafa fært fyrir því góð rök að nýi spitalinn við Hringbraut sé framkvæmd sem á ekki rétt á sér. Aðrir segja að við "græðum milljarða" á að færa hann á einn stað.  Eitt sinn átti að nota til hans Landsímapeningana sem nú er líkast til horfnir og taka þarf lán fyrir öllum herlegheitunum. Og samt er hægt að reikna út hagnað þótt Borgarspítalann, sú merka sjúkrastofnun sé einfaldlega lögð niður og óvíst að hvaða notum byggingin kemur eftir flutning. Maður óttast að nú segi ráðamenn á atkvæðaveiðum; " Reiknaðu rétt strákur" í anda danska einokunarkaupmannsins forðum daga. Verðum við ekki alla vega að setja eitt risastórt spurningamerki við þennan gjörning ?


Undarleg einkavæðingarhagfræði

Eftir á að hyggja er það með ólíkindum að þeir sem keyptu Landsbankann og Landssímann hafi getað gengið út í næsta banka og slegið 60-70 milljarða fyrir kaupunum. Landsíminn skilaði á sínum tíma um 3-4 milljörðum árlega í afgang til ríkissjóðs. 10 prósenta vextir og verðbætur af 65 milljörðum eru 6.5 mj. á ári. Þrátt fyrir að reksturinn hafi gengið, fyrir utan fjámagnsliði, þá mátti hver maður sjá að þetta gengi ekki upp nema að neytendur tæki á sig tvöfalda gjaldskrárhækkun. Hver ber ábyrgð á svona lánveitingu? Svipað á við um sölu Landsbankans.


Hvernig EES aðild og flöktandi króna fara ekki saman

það var ekki skynsamlegt að taka á sig allar skuldbindingar  Evrópska efnahagssvæðisins,sem eins og margoft hefur komið fram, eru um 70 af hundraði allra skuldbindinga bandalagsins án þess að evran fylgdi með um leið og sú skipan mála komst á. Skírasta dæmið er um frjálsa fjármagsflutninga og skuldir í erlendri mynt. Annað, eins og ákvæðið um að öll útboðsverk yfir ákveðinni upphæð skuli jafnframt boðin út á EES svæðinu. Auðvitað fá erlendir aðilar stærstu verkin eins og sýndi sig við Kárahnjúkavirkjun, og yfirstandandi jarðgangagerð. Ef krónan fellur hækkar verkið samsvarandi því að tilboðsupphæðir verka hljóta að vera gengistryggðar. Sem betur fer hélst krónan sterk á meðan framkvæmdir við Kárahnjúka stóðu yfir. En framundan eru ef til vill stórverk í virkjunum sem lúta þessum lögmálum. Ég er enginn talsmaður upptöku evru en bendi á að þessi atriði stangast hastarlega á.


Evrópusambandið,hingað og ekki lengra !

 það er með miklum ólíkindum hversu mikil áhersla er búin að vera undanfarið tæpt ár, eða allt frá hruninu í október á síðasta ári, á umsókn og hugsanlega inngöngu í ESB. Í þetta hefur farið mikill tími ,fé og fyrirhöfn,sem betur hefði verið varið í allt annað og þarflegra.

Það hálfa skref í átt til Evrópusambandsins með EES samningnum, hefur haft ótrúlegar afleiðingar sem reyndar enginn gat séð fyrir. Frjálst flæði vinnuafls í bland við skipulagsleysi, gróðavon íslenskra verktaka og gríðarlegar framkvæmdir hins opinbera, hefur ekki hvað síst gert okkur að stórskuldugri þjóð. Og laun þessa  "frjálsa" innflutta vinnuafls urðum við að mestu leyti að greiða í erlendum gjaldeyri sem launafólkið sendi til síns heima. Á frjálst fjármagnsflæði milli landa og innistæðutryggingarnar í erlendum bönkum, minnist ég ekki á ógrátandi. Allir vita hvert það hefur komið okkur í meðförum misviturra kaupahéðna , veruleikafirrtra stjórnenda fjármálafyrirtækja ásamt með nauðungarvaldboði þessa eftirsóknarverða félagsskapar,ESB. 

Hvað með Schengen ? Hér höldum við uppi rándýrri landamæravörslu fyrir meginland  Evrópu ásamt öðrum uppátækjum sem  Brussel dettur í hug að senda okkur og við samþykkjum vegna þess að við viljum vera svo miklir Evrópubúar og viljum taka upp evruna.
Evrópa er meginland og mikill kostur er að hafa sama gjaldmiðil fyrir almenning sem eðlilega er alltaf á ferðinni þar á milli landa. Evran hefur líka marga ókosti sérstaklega fyrir þau lönd sem eru að taka hana upp eða eru nýbúin að því eftir að hafa gengið efnahagsleg svipugöng.
 Nú það nýjasta.  Okkur er  tilkynnt af OECD að við þurfum fljótlega að fara að einkavæða  bankana.....aftur !!  

Og enga flýtimeðferð á umsókninni fáum við umfram aðrar þjóðir þótt við höfum verið í EES og tekið við tilskipunum í 15 ár ! ! Er hægt að ganga lengra í niðurlægingunni

Eftir sex alda móttökureynslu af tilskipunum frá Danmörku, finnst okkur líklega ekkert  sjálfsagðara en gleypa við öllu því sem frá herrunum í Brussel kemur. Og hvers vegna í ósköpunum erum við að sækjast eftir því að komast inn í 600 milljóna manna ríkjabandalag ,hafandi engin áhrif, hvorki á eitt né neitt? Það er ekki eins og að Evrópubúar hafi verið að fjárfesta mikið hér á landi eða aðstoða okkur á einhvern hátt til atvinnuuppbygginga. Hreinlega ekkert utan einhverja rannsóknastyrkja.

 Á meðan "dældum" við erlendu lánsfé í alls konar vitleysis fjárfestingar í þessum ríkjum á meðan þær fjárfestingar sem hingað skiluðu sér, komu frá Ameríku.

Ef við endilega viljum komast í ríkjabandalag ættum við í  að tala í alvöru við okkar næstu stóru nágranna  í austri og vestri, Norðmenn og Kanadamenn. Það er hæfilega stórt fyrir okkur. Þaðan getum við fengið allar þær vörur sem okkur vanhagar um og þangað getum við selt það sem við viljum selja. Við þurfum ekki aðild að 600 milljóna markaðsvæði til að koma út okkar vörum. Auk þess er heimurinn  stærri en Evrópa. Ef íslenskir stjórnmálamenn, sem við höfum kosið yfir okkur fara ekki að sjá að sér er ekki um annað að ræða en kjósa með fótunum. Sú kosning stendur nú yfir.

 


Gjaldmiðlar og sótthiti

Margt hefur verið rætt, ritað, og ég tala nú ekki um, bloggað um aðildarumsókn og hugsanlega inngöngu í ESB. Sem betur fer eru stjórnarflokkarnir ekki sammála um það mál en stór hluti kjósenda allra flokka finnst þó í lagi að kíkja á hvað er í boði. Einungis Samfylkingin óklofin heldur því fram að innganga sé allra meina bót. Hún hefur haldið því fram að ástandið hér muni batna að einhverju leiti, bara með því að afhenda aðildarumsókn. Lítið bólar á því. Viðkvæðið var hér hjá öllum, meðan flest lék í lyndi, að þangað hefðum við ekkert að gera, hefðum alla kostina með EES aðildinni og þyrftum engu að fórna. En einkum Samfylkingin er tilbúin að fórna ýmsu til að komast í myntbandalagið og taka upp evruna sem á þá að vera ávísun á stöðugleika. Og nú kemur samlíkingin við hitamælinn,sem ætti að vera flestum auðskilin. Gjaldmiðillinn, krónan okkar endurspeglar einungis lélega hagstjórn undanfarinna ára , í bland við bankahrunið, háa verðbólgu, hæstu vexti og gríðarlegar skuldir, jafnt ríkisins fyrirtækja og einstaklinga. Hitamælirinn sýnir því að"þjóðarbúið" er með sótthita við hættumörk. En ef við göngum í ESB, þar sem hitinn mælist að meðaltali rúm 37 stig,er okkur talið  borgið og að  hitinn snarlækki við það eitt. Ég held ekki. Hitamælir læknar ekki sótthitann en réttur sýnir okkur ástandið eins og það er. Einbeitum okkar að endurreisninni á eigin forsendum og þar eru gríðarleg verkefni framundan.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband