Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Efnahagsleg ragnarök eru stór orð

En einmitt þannig tók hann til orða viðmælandi Egils Helgasonar Alex Jurshevski s.l.sunnudag. Hann var væntanlega fenginn hingað sem reynslubolti í málefnum of skuldsettra ríkja og veit Alex væntanlega hvað hann er að tala um. En einmitt ragnarökin  taldi hann að myndi dynja á okkur ef við héldum áfram á lánabrautinni. Steingrímur Joð glotti aðeins út í annað og sagði "að það þyrfti ekki útlending til að segja okkur þetta." En bíðum við,vildi ekki sami Steingrímur og reyndar stjórnin öll, fyrir alla muni setja á okkur Icesave skuldaklafan með háum vaxtagreiðslum af ca 700 milljörðum til þess eins að geta tekið enn meiri lán og kannski blíðka Evrópusambandið aðeins í leiðinni ?

 


Að lokinni þjóðaratkvæðagreiðslu.....

.....sem ég vil endilega fá að kalla þjóðkosningu heldur lífið áfram sinn vanagang. Mjög líklega verður nei-ið stórt og lögin þar með felld. Þá taka við þrjár leiðir varðandi þennan Icesaveófögnuð.

Sú fyrsta er. "Getum ekki borgað, eigum ekki að borga,.. see you in court" Afleiðingar þessa eru algerlega ófyrirsjáanlegar og ómögulegt að spá í þær.

Leið tvö. Ríkisstjórnin reynir hvað hún getur til að ná nýjum samningum sem fyrst, ekki síst til að trufla ekki ESB aðildarumsóknarferlið. Takist það þarf sá samningur að fara fyrir þingið, væntanlega með löngum og tilfinningaríkum umræðum. Fáist hann að lokum samþykktur þar, þá þarf forsetinn að samþykkja lögin og þjóðin hefur efalaust heilmikið að segja um þann samning. Sú framavinda er einnig ófyrirsjáanleg.

Það þriðja getur gerst að stjórnin taki þessu illa og segi af sér. Er ekki ætlast til að hún hafi þing, forseta og þjóð með sér í svona erfiðu og stóru máli. Ekki yrði ég hissa á því. Væri ekki langflestir búnir að fá nóg af því að stjórna landinu við þessar aðstæður ?


"Fagur fiskur í sjó " er nú orðinn okkur rándýr.

Ein af afleiðingum gengishruns krónunnar er að innfluttar vörur hafa tvöfaldast í verði. Fólk gapir yfir verðlagi á t.d.bifreiðum og það hefur algjörlega lokast fyrir þann innflutning. Sama gildir um innfluttar byggingavörur og svo margt fleira. Sem jákvæða afleiðingu má nefna aukin útflutning þar sem veik króna kemur okkur til góða. Þetta má sjá á áður óþekktum tölum um viðskiptajöfnuð.

Það sem er að koma okkur alvarlega í koll á tímum vaxandi atvinnuleysis og minnkun kaupmáttar er himinhátt verð á fiski til neytenda innanlands. Þetta nær ekki lengur nokkurri átt og verður að breytast hið snarasta. Að við skulum þurfa að greiða heimsmarkaðsverð fyrir fisk hér í búðum er hneisa. Haldið þið að Brasilíumenn greiði heimsmarkaðsverð fyrir kaffi, Danir fyrir svínakjöt eða Saudi- arabar fyrir olíu? Hér á árum áður var okkar aðalsmerki að fiskur var ódýr matvara og allir gátu veitt sér þann munað að neyta þess hollmetis. Nú göpum við í hvert sinn sem við komum í fiskbúð yfir verðinu. Kíló af fiski komið í 1500,sem var 800 fyrir ekki svo löngu síðan og þar áður ásættanlegt þegar það var 500 krónur kílóið.

Kvótakerfið, ásamt því að allur fiskur fari á markað, nema sá sem  veiddur er í soðið af eigendum skemmtibáta,veldur þessu háa verði. Borði hver Íslendingur átta fiskmáltíðir í mánuði gerir það lítil 24 kg á ári eða 7200 tonn alls . Líklegri tala er 5000 tonn af unnum fiski. Geta menn nú ekki skrattast til að veiða þessa smámuni utan kerfis, með úthlutun þessa aflamagns til ríkisútgerðar þess vegna? Þetta hlýtur að vera sanngjörn krafa landsmanna nú á þessum erfiðu tímum .

 


Já..,það munaði bara einum !

En að vísu var sá eini, okkar þjóðkjörni forseti, sem öðru sinni greip inn í gerðir flokksræðisins á Alþingi og nýtti sér málskotsréttinn með synjun laga. Og nú mun þjóðin kjósa og væntanlega fella "Icesavelögin" Þrátt fyrir tvöhundruð tíma rökræður stjórnarandstöðunnar gegn lögunum, gjörningaveður í bloggheimum, og þótt meirihluti stjórnarþingmanna væri þeim andvígur náðu lögin í gegn. Langflestir stjórnarþingmennirnir beygðu sig  fyrir flokksræðinu.

Sama gerðist eins og allir vita þegar forseti synjaði fjölmiðlalögunum. Ýmsir sjá vankanta á þessu fyrirkomulagi og segja sem svo, að úr því að þessu úrræði var áður aldrei beitt, ætti aldrei að beita því. En forsetin var að grípa inn í gerðir flokksræðisins, ekki þingræðisins. Í samsteypustjórn virðist stærri flokkurinn alltaf teyma þann minni og sameiginlega ana þeir út í vitleysuna.

Forsetinn er eini háttsetti embættismaðurinn sem er kosinn beinni kosningu. Best væri þó að hann hefði meirihluta atkvæða á bak við sig og önnur umferð færi fram milli tveggja efstu ef ekki næðist meirihluti í fyrstu umferð.Það fyrirkomulag forsetakosninga er algengast. Hann má vera pólitískur mín vegna og starfa frekar í anda Ólafs Ragnars eftir að hann sjálfur  lætur af embætti. Ef ekki, þá mætti eins leggja embættið niður og  bæta skyldum þess við skyldur forseta Alþingis,eða jafnvel forsætisráðherra sem yrði þá kosinn beinni kosningu af þjóðinni. En Icesave deilunni er langt frá því lokið,vonandi fær hún farsælan endi fyrir okkur landsmenn.


Óheppni hjá okkar mönnum

Evrópumeistaramótið í handbolta er erfiðasta mótið af þeim þremur stóru,hin eru Heimsmeistaramót og Olympíuleikar. Þarna raðast saman sterkustu liðin í íþróttinni og hver leikur er erfiður og engin mótherji er léttur eins og getur orðið í hinum mótunum. Lið Serba og Austurríkismanna voru frábær og auðvitað leikur okkar manna líka. Það var hrein óheppni að missa af sigrinum en stigin tvö telja vel og enn er vel  hægt að komast áfram. Ég held að það hafi slegið marga hversu neikvæður þulurinn var sem lýsti leiknum og best kom fram í viðtalinu við Ólaf Stefánsson. Vona að hann verði á jákvæðu nótunum í leiknum gegn Dönum. Við erum með frábært lið. Hin liðin eru bara líka frábær og afar erfiðir andstæðingar. Verum jákvæð og náum jafntefli eða sigri gegn Dönum. 


Enn og aftur um háskólasjúkrahús og umhverfi þess.

Ég átti leið um Hringbrautina á móts við Landspítalann nýlega og rak þá í rogastans að sjá allan þann fjölda bíla sem lagt var á lóð spítalans,við Hringbrautina sjálfa og ekki síður umhverfis hús tannlæknadeildar og í átt að Umferðamiðstöðinni. Nú stendur til að að þarna rísi "Hátæknisjúkrahúsið" umdeilda sem er á við nokkra Borgarspítala og þá með samsvarandi auknu plássi undir bílastæði,segjum þreföldu því stæði sem er við spítalann í Fossvogi. Væntanleg er síðan samgöngumiðstöðin milli nýlagðs Hlíðarfótar og flugbrautar með væntanlega tvöföldu því stæði sem lagt er undir stæðin við gömlu flugstöðina við Skerjafjörð.

Nú vill svo til að að Seltjarnarnesið er "takmörkuð auðlind" þ.e. lukt af sjó að mestu. Er virkilega brýn nauðsyn að leggja allt þetta dýrmæta land undir malbik þegar austan Nessins taka við tæpir 100.000 ferkílometrar af svo til ónýttu landi ?


Þjóðaratkvæðagreiðsla, góður gjörningur en ótækt orð!

Þær eru margar ambögurnar í íslensku máli og  má  færa góð rök fyrir því að ein af þeim sé nafnorðið þjóðaratkvæðagreiðsla. Kannski er það svo að sökum lítillar notkunar á hinni eiginlegu framkvæmd hefur ekki þótt ástæða að uppfæra hugtakið sjálft.  Sú athöfn að greiða atkvæði um menn eða málefni heitir kosning og fólk greiðir atkvæði í kosningum. Er því ekki eðlilegast að þegar þjóðin gengur til atkvæða um mál eins og sjálfstæði landsins  og nú 66 árum síðar um hið drepleiðinlega en örlagaríka mál um Icesaveskuldbindingarnar, þá heiti það einfaldlega þjóðkosning eða þjóðkosningar eða jafnvel þjóðarkosning /ar. Kem hér með þessari hugmynd á framfæri.

Í TILEFNI ÞJÓÐARKOSNINGAR

 

Þegar skuld verður til, ég tala nú ekki um ef hún sökum stærðar sinnar getur sett þjóðríki á hliðina, er þá ekki grundvallaratriði að fá úr því skorið  hvort beri að greiða þá skuld?  Ef sú yrði niðurstaðan, þá hefði að sjálfsögðu átt ganga til samninga við lánveitendurna í þessu tilefni Breta og Hollendinga vegna Icesave innistæðnanna.

Fráleitt var að láta þá beita okkur bolabrögðum, hótunum og þvingunum og jafnframt um leið að láta þá hafa áhrif á ríkisstjórn (ir)  landsins með hræðsluáróður þeim í hag. Nefnilega þess efnis að illa fari fyrir okkur verði ekki gengið að þeirra kröfum. Þeirra helsta og beittasta vopn  strax í byrjun bankahrunsins og það sem setti stjórn Geirs Harde í varnarstöðu jafnt og þær stjórnir sem tóku við,var þessi hótun sem rúmast í einni setningu. "Ef þið gangist ekki við því að greiða innistæðutrygginguna, rúmar 20.000 evrur fyrir hvern reiknishafa, þá verðið þið látin greiða innistæðurnar að fullu í krafti þess að neyðarlögunum um innistæður Íslendinga hér heima verði hnekkt." Hvort tveggja er lagalega óútkljáð eins síðan hefur glöggt komið fram. Þarna hefði mátt doka við og fá úr því skorið hver okkar réttur væri.

 Kjósum núverandi sem og fyrri lög úr gildi og setjum Icesave skuldbindingar aftur á byrjunarreit !


Um gjár og brýr

Nú verða þingmenn, núverandi og fyrrverandi, aðeins að gæta sín. Forsetinn synjaði lögunum og notaði sér málskotsrétt til að þjóðin fengi að kjósa um málið. Synjun fjölmiðlalaganna var smámál miðað við þessi Icesavelög og 2004 gripu stjórnvöld inní og afturkölluðu lögin og fólki var svo sem sama um að vera ekki að vesenast í þjóðaratkvæðagreiðslu þess vegna. En nú ætti það að vera kýrskýrt að enginn ráðamaður á að geta stöðvað eða breytt ákvörðun forsetans, brúin milli hans og þjóðarinnar hefur verið reist og engin hefur rétt til að fella hana þótt ýmsar hugmyndir séu á lofti um það. Við gætum allt eins spurt í kosningunni hreinnar spurningar til hliðar við kosninguna um lögin sjálf; Á íslenska þjóðin að greiða Icesave skuldbindingarar?  Já eða nei.


Atvinnuöryggi umfram þjóðarhag

Ríkisstjórn Íslands er langt frá því að vera öfundsverð af þeim verkum sem hún var kosin til að vinna.Í þetta skipti tók stjórn við hrundu búi en ekki slæmu eins og áður var gjarnan sagt sér til afsökunar. Allt þetta ár hefur hún þurft að kljást við "Icesavedraugin", uppvakning frá fyrra búi,sem ekki verður kveðinn niður svo auðveldlega.

En stjórnin tók það upp, algjörlega á sitt eindæmi, að sækja um aðild að ESB og er sú umsókn í ferli eins og allir vita. Í þessu stóra máli voru allir flokkar inn á því að; "jú, það er svo sem í lagi að athuga þetta, verst hvað þetta kostar mikið, og sjá hvað er í boði."

Þessi stóru mál  eru bæði vel fallin til að kljúfa þjóðina og mynda gjá milli þings og hennar, stærri gjá en áður hefur nokkru sinni myndast. Hvað Icesave varðar á auðvitað á sama hátt að athuga fyrst hvort þjóðin eigi að greiða þessar óreiðuskuldir og sé lagalega ábyrg fyrir þeim. Og það þarf efalaust að sækja til æðsta dómsstigs, hvar sem það nú verður að finna.

Þegar hlutföllin eru svona jöfn á þingi eins og kom berlega í ljós í gær, má það ekki ráðast af því hvort einn einstaklingur sem er utan allra flokka og án alls baklands er vel eða illa fyrir kallaður þennan daginn. Hvort við þurfum að greiða 100 milljónir á dag í vexti eða ekki, næstu sjö árin eða svo. Síðan getur maður ekki varist þeirri hugsun, að þegar flokkur gengur jafn taktfast saman og Samfylkingin í þessu máli, að  þá sé frekar hugsað um málið frá sjónarmiði atvinnuöryggis en eigin sannfæringu.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband