Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
8.9.2010 | 13:26
Stjórnlagaþing og kjördæmaskipan
Það stefnir í stjórnlagaþing og þá kemur ekki til með að vanta hugmyndir frá okkur bloggurum. Fjallháir staflar af tillögum eru efalaust þegar til frá þjóðfundum undanfarinna missera og margar þeirra efalaust góðar. Ekki veit ég hvort þessi tillaga mín um nýja kjördæmaskipun er þar inni en ég má til með að láta hana flakka, ekki síst til að losna við hana, og það er svo annarra að huga að því hvort hún er nýtileg.
Kjördæmaskipan verður efalaust á dagskrá, allt frá því að hafa landið eitt kjördæmi og upp í óbreytt ástand. Varla verður kjördæmum fjölgað frá því sem nú er. Tillaga mín er að landið verði tvö kjördæmi og þá sem næst því að vera jafn mannmörg. Þetta næst með því að Reykjavíkurkjördæmin tvö ásamt Mosfellsbæ og Norðvesturkjördæmi verði að einu kjördæmi. Hitt kjördæmið verði þá gert úr núverandi Suðvestur- ( án Mosfellsbjar ) Suður- og Norðausturkjördæmi. Hvort kjördæmi hefði þá um 95.000 kjósendur svo jafnara gæti það ekki orðið. Til að hafa oddatölu þingmanna yrði það að ráðast hvort kjördæmið hefði einum þingmanni fleira og það yrði það kjördæmi sem hefði fleiri greidd atkvæði. Það er of mikil breyting í einu stökki að gera landið að einu kjördæmi.Með þessu fyrirkomulagi tel ég að koma megi í veg fyrir frekara kjördæmapot og kosningaloforð sem með öðru eru langt komin með að setja þjóðina á hausinn.
5.9.2010 | 20:19
Hollendingarnir fljúgandi
Stjórnmál og samfélag | Breytt 6.9.2010 kl. 12:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
29.8.2010 | 14:58
Hvar liggur rót vandans?
Okkur Íslendingum er fátt tamara en stunda skoðanskipti alla daga og kaffæra góð málefni í endalausum útúrsnúningum. Varla erum við komnir að niðurstöðu í einu máli að við tökum ekki til við annað og oft á tíðum vill það fyrra gleymast. Frjó umræða er auðvitað af hinu góða en þeir mörgu ráðamenn sem fylgjast með tíðarandanum eiga fullt í fangi að greina kjarnann frá hisminu. Og velji þeir veginn til umbóta rekast þeir gjarnan á veggi sérhagsmuna- og samtryggingarhópa, ég tala nú ekki um valdablokkir.
Umræðan var komin vel á veg um afnám eða breytingu á lögum um verðtryggingu og við lá að hún kæmi fyrir Alþingi en ef til vill er núna verið að vinna að þingmáli um þau efni. Þegar verðtryggingin var sett á átti hún rétt á sér en á síðustu misserum og árum hefur hún snúist í andhverfu sína, skekkt hagstærðir og í bland við gengishrun og óðabruðl stjórnvalda komið fólki á vonarvöl og stuðlað að landflótta. Það þekkist hvergi að fyrirtæki og fólk geti staðið undir þeim vaxtakjörum sem okkur hefur verið boðið upp það sem af er þessari öld. Nú kastar tólfunum ef bankar eiga að fara að græða á því að Orkuveitan stórhækki gjaldskrána. Sama gildir um erlenda vöru,bensín, kaffi, hvaðeina. Eitt af því örfáa sem gæti tengst vísitölu / verðtryggingu eru launataxtar.Ekki er óeðlilegt að lífeyrisréttindi hækki eða lækki í takt við launaþróun. Verðbólga er eitthvað sem örugglega er beintengt þjóðarframleiðslu. Ef hún er lítil og kraftar landsmanna beinast að einhverju "húmbúkki" fellur allt um sjálft sig eins og nýleg dæmi sanna. Vegna óstjórnar og efnahagsáfalla síðustu ára þarf Orkuveitan á hækkunum að halda. Förum þó varlega þegar kemur að verðtryggingu lána í kjölfarið.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 21:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
1.6.2010 | 10:48
Hringekja fáránleikans
27.5.2010 | 19:28
Kosningar á næsta leyti
Síðasta kjörtímabil í Reykjavík var eins og allir vita með einsdæmum. Og vitleysan nær jafnvel lengra aftur, einkum hvað varðar skipulagsmál. Út um alla borg eru ennþá auðar lóðir þar sem áður stóðu ágætis byggingar og heilu hverfin á höfuðborgarsvæðinu hálfbyggð og tæplega það. Við lá að Austurbæjarbíó yrði rifið, sem og húsin sem standa á lóð fyrirhugaðs Listaháskóla milli Laugavegar og Hverfisgötu. Þar væru nú opin sár í viðkvæmri borgarmyndinni hefði niðurrifið gengið eftir. Tónlistar-og ráðstefnuhúsið, sem nú stendur fjarri alfararleið, og HR byggingin við Nauthólsvík eru verkefni sem eru ofviða getu fámennrar þjóðar við núverandi aðstæður,bæði hvað byggingarkostnað varðar og rekstur til framtíðar. Vorum við ekki öll á einhverju flippi í ímynduðu góðærinu og töldum við ekki okkur alla vegi færa, ekki síst stjórnmálamenn og konur.
Hver stjórnarkreppan á fætur annarri kom upp í borginni og í kjölfarið tíð borgarstjóraskipti.Við ein þeirra kom upp í hugann hvort ekki væri rétt að Alþingi setti á bráðabirgðalög og kjósa ætti að nýju borgarstjórn áður en kjörtímabilinu lyki því að ekki leit út fyrir að borgarfulltrúarnir gætu sinnt hlutverki sínu.Það er þó að líkindum ekki framkvæmanlegt. Þetta vil ég draga fram núna þar sem sveitarstjórnarlög heimila ekki slíkt og þingmenn efalaust í vanda með að samþykkja slík bráðabirgðalög. Kjörnir fulltrúar eða varafulltrúar þeirra skulu stjórna Reykjavík sem og öðrum sveitarfélögum út kjörtímabilið, hvað sem tautar og raular. Þeir geta hins vegar skipt um meirihluta að vild en við það kemur eðlilega hökt eða bakslag á stjórnsýsluna eins og dæmin frá borginni sanna.
En nú dregur til tíðinda á síðustu dögum fyrir kosningar og sérstaklega vegna mikils fylgis Besta flokksins. Besti flokkurinn ER grínframboð en hann verður að öllum líkindum í oddaaðstöðu ef þá ekki í meirihluta í borginni næsta kjörtímabil. Hann má kalla svar lýðræðisins við ótækum stjórnarháttum liðinna ára, pólitísk refsing fjórflokksins jafnt í borgarmálum sem í landsmálum. En verður hann okkur til góðs í heil fjögur ár? Er hann besti flokkurinn til að leiða okkur út úr ógöngum kjörtímabilsins sem að mestu fór forgörðum?Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 20:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
19.4.2010 | 13:13
Hvenær breytist gosið?
Hver getur upplýst mig og aðra um það hvernig gosið Eyjafjallajökli 1821 gekk fyrir sig ? Aðallega til að finna út hvenær það breyttist úr öskugosi í hraungos. Það skiptir miklu máli fyrir alla að vita þetta. Þeir sem halda að öskugos sem slíkt geti staðið í á annað ár, og þar af leiðandi truflað flugumferð um mjög langan tima eru eðlilega mjög uggandi. Mér finnst að það þurfi að koma þessum skilaboðum á framfæri við okkur og ekki síst til annara þjóða. Þeir sem sjá um flugrekstur verða að vita, að þegar gosið breytist í hraungos verði það mun skárra eða svipað og gosið sem var í Fimmvörðuhálsi. Getur einhver spáð fyrir með vissu um þetta, hvort það séu dagar eða vikur,vonandi ekki mánuðir? Þá verður minni ástæða til að koma flugvélum á loft og skapa óþarfa áhættu..
17.4.2010 | 21:33
Hættuástand
Það var greinilega unnið vel og skipulega þegar flóðin komu í Markarfljót í vikunni og þar skapaðist virkilega hættuástand. Vonandi er flóðunum að linna. En eru menn nóg á varðbergi vegna þess sem er að gerast undir Eyjafjöllum? Er vitað nógu vel hvaða áhrif þetta öskufall hefur á fólk? Er ekki full ástaða til að vera með rýmingaráætlun þar líka. Kemst fólkið þaðan allt af sjálfsdáðum ef vistin þar verður óbærileg og þarf ekki að huga að því að allir geti sofið annarsstaðar. Við vitum að fólk flúði þaðan í síðasta gosi úr jöklinum 1820 og búpeningur drapst.
Hver geta langtímaáhrif verið að anda þessu öskumettaða lofti að sér í langan tíma? Hvað gerist ef fer að rigna duglega ? Og þarf ekki að gera ráðstafanir og vera tilbúin breytingum á vindátt til vesturs og sérstaklega fyrst um sinn vegna búpenings sem gengur úti ? Er ekki rétt að almannavarnir hugi rækilega að þessu strax og við drögum úr því rétt á meðan að ræða um pólitík og uppgjör sem einfaldlega dregur athyglina frá þessu? Þurfa ekki að vera stöðugar útsendingar í útvarpi eins og var í vikunni vegna flóðanna?
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 21:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
8.4.2010 | 21:35
Vegatollar og eftirlit að ofan
Heyrði í samgönguráðherra í morgun á Bylgjunni og reyndar líka í Kastljósinu í kvöld. Hann var á því að tvöfalda veginn til Selfoss. En það væru nú engir til peningarnir. Þess vegna þyrfti að taka lán hjá lífeyrisjóðunum og greiða til baka með vegatollum auk hefðbundinna bensínskatta. Einn hængur var þó á,nefnilega sá, að rafmagns- metan- og etanolknúnir bílar slyppu við að borga skatta í gegnum bensín- og olíunotkun. Þess vegna þyrfti að setja í alla bíla kubb og fylgjast með þeim frá gervihnetti eins og þeir munu ætla að gera á meginlandi Evrópu. Þannig greiði bílar eftir notkun ! Eitthvað hlýtur nú það eftirlits- og rukkunarkerfi að kosta okkur neytendur / skattgreiðendur.
Er það ekki brandari að þessir bílar skuli sleppa við að borga sem sem svarar bensínsköttum allt undir yfirskyni minnkandi loftmengunar. Það væri ekki dýrt að aka um á bensínbíl ef engir væru skattarnir og álagningin í hófi. ( ef olíufélögin væru rekin af hagræðingu að leiðarljósi). Hvað ætti vegtollurinn í Héðinsfjarðargöngunum að verða ef hann ætti að greiða upp kostnaðinn við þau. Spaugstofan tók það ágætlega fyrir á sínum tíma eins og svo margt annað hrunárin 2007-8. Þá hlógum við að öllu saman.Stjórnmál og samfélag | Breytt 9.4.2010 kl. 12:01 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
29.3.2010 | 15:56
Nafn í nafnabanka nýja eldfjallsins
Margir hafa velt fyrir sér nýju heiti á eldstöðina á Fimmvörðuhálsi og margt gott komið fram. Mér fannst við hæfi að nafnið yrði dregið af nágrannanum Kötlu. KÖTLUNGUR gæti því fjallið heitið en síðan skaut upp í kollinum KETILL sem er jafnvel betra. Bæði er að nöfnin eru skyld, fjallið tekur efalaust á sig ketils- eða skálarmynd og ekki spillir tengingin við málsháttinn, "að falla allur ketill í eld", fyrir nafninu.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 16:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
23.3.2010 | 18:00