29.12.2010 | 20:08
Við Íslendingar erum ekki dæmigerðir Evrópubúar og því fór sem fór. Ef við göngum í ESB þá fer sem fer!
Það er eiginlega allt sem skilur okkur frá hinum dæmigerða Evrópubúa sem í sjálfu sér er örðugt að finna innan um milljónirnar 500 sem þar búa. Hann gæti eins verið Suður-Þjóðverji, Norður-Frakki eða Mið-Breti eða þá að hann býr í litlum bæ í Austurríki. Vegna sögu okkar,staðsetningu og fámennis í stóru landi, lífshátta og séríslenskrar menningar erum við eins langt frá samnefnara Evrópubúans sem hugsast getur. Auðvitað svipar okkur til íbúa strandhéraða við norðaustur Atlantshaf og auðvitað erum við á nokkuð hraðri leið að alþjóðavæðast á þeirri bylgju sem nú fer um heiminn en evrópsk hugsun er fjarri okkur einkum þegar kemur að peningamálum.
"Íslenska þjóðarsálin" ber svo sterkan svip, mótuðum af aldanna rás, að hún er auðþekkjanleg hvar sem er. Ef ekki af viðmóti þá af athöfnum. Við vitum öll hver einkenni okkar eru og óþarft að telja þau öll upp en ég vil reyna að skýra atburðarás þessa áratugar í ljósi þess þegar við komumst í nokkuð náin efnahagsleg kynni við Evrópu eftir inngöngu í evrópskt efnahagssvæði í lok síðustu aldar. Þau okkar sem fædd eru fyrir miðja síðustu öld þekkja vel óstöðugleikann í efnahagsmálum, gildi þess að þekkja mann sem þekkir mann, getað veifað réttu flokksskírteini eða þá í stöku tilfelli komist að kjötkötlum fjármagnsins af eigin dugnaði og útsjónarsemi. Ekkert af þessu dugði þó ef óstjórn peningamála setti allt á hliðina og fólk gat því endað engu að síður slippt og snautt.
Undur og stórmerki gerðust þegar ríkisbankarnir,sem fram að því höfðu ekki stundað mikil kollsteypuviðskipti, komust í hendurnar á einkaaðilum. Þá tók íslenska þjóðarsálin við sér. Erlendir bankar vildu ólmir lána okkur. Við höfðum lánstraust enda alltaf staðið í skilum og lánspeningarnir enduðu oftar en ekki í uppkaupum á fyrirtækjum á meginlandinu. Og svo til allir dönsuðu með. Þetta var séríslenskt. Ef hægt var að fá peninga að láni skildu þeir teknir og þar eru engir undanskildir, hvorki ríkisstjórnir sveitarfélög eða margumræddir einkaaðilar. Ef lánin dygðu ekki skyldi tekin meiri lán og síðan hlyti þetta að reddast! Nú sitja allir eftiráspekingarnir uppi með sárt ennið sem og margir fleiri sem töpuðu sínu. Pólitískar nornaveiðar eru löngu hafnar og sökudólga hrunsins er enn leitað, sem og afar dýr leit að horfnu fé í formi nála í heysátum skattaparadísa.
En er þetta ekki einfaldlega sök efnahagslegrar arfleifðar okkar ásamt því að lenda í nýju evrópsku banka- og fjármálaumhverfi ? Hvað gerist í framhaldi þess að við tækjum ESB-skrefið til fulls er síðan með öllu óljóst.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 19:51 | Facebook
Athugasemdir
Mér finnst sterkasta einkennið vera "þetta reddast", sem margir líta á sem einfeldni. Menn eru góðir í skák, en lélegir í skák lífsins .... skilja ekki hvaða afleiðingar leikir hafa í för með sér, till styttri eða lengri tíma. Hér má nefna ESB skrefið. Til styttri tíma, þýðir þetta skref kannski eitthvað skárri efnahag og stöðugleika. Til lengri tíma, þýðir þetta skref að Íslendingar tapa landi sínu og fullveldi. Annaðhvort beint eða óbeint.
Hér þyrfti "víkingurinn" að koma upp í Íslendingum, en því miður þá dó þessi síðasti víkingur á sturlungaöld ... og arfleið hans fór í "útrás". Eftir eru bændur, sem munu gera sér gott að kaupa sér öryggi undir Noregs konungi í annað sinn, með 700 ára örbyggð sem afleiðingar.
Bjarne Örn Hansen (IP-tala skráð) 29.12.2010 kl. 20:38
Takk fyrir þessa athugasemd Bjarne. Það getur verið erfitt að taka ákvarðanir um framtíð landsins þegar lítið er hægt að gera sér í hugarlund hvernig staða okkar verður innan ESB. Er ekki rétt að flyta okkur hægt og sjá hvernig sambandinu og evrunni reiðir af á næstu árum ?
Sigurður Ingólfsson, 29.12.2010 kl. 23:27
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.