Vafasamt verkefni Rauða krossins

það er öruggt að ég mun ekki teljast til góða fólksins eftir gagnrýni á þetta framtak Rauða krossins að leggja það á óþroskaða unglinga að setja sig í spor flóttafólks og það að nóttu til í vetrarkulda.

Þetta getur haft varanleg árif á þátttakendur og ekki öll til góðs.Mér finnst að jafnvel Barnaverndarnefnd ætti að kynna sér viðburðinn og fylgjast með hvort eigi að leyfa þetta. það er alveg nóg að halda fyrirlestur um vanda flóttafólks fyrir þá unglinga sem áhuga hafa. Ég veit af reynslu að þetta er alltof sterk og erfið upplifun fyrir þá sem taka þátt.


mbl.is Fjölskyldur „á flótta“ í Heiðmörk
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Enn um skattaskjól og peningamál

Margt er skrítið í henni veröld og mótsagnakennt.Ekki finnst mér neitt rangt við ummæli Sigurðar Inga forsætisráðherra, "að erfitt sé að eiga peninga á Íslandi".Nema að hægt var að snúa "pólitískt" út úr ummælum og segja að "ennþá verra sé að eiga enga peninga á Íslandi". Buðu bankarnir ekki einfaldlega sínum bestu viðskiptavinum að bjarga peningum þeirra og þá áttu í "skattaskjól" eða inn á aflandsreikninga ? Hver myndi ekki þyggja þá aðstoð. Sumum var reyndar boðið að forða peningum sínum í ýmsa sjóði en það fór illa.

Hér reið síðan yfir bankahrun, hátt gengisfall,óðaverðbólga með 20 % vexti af lánum auk mikils atvinnuleysis og landsflótta í kjölfarið. Þær fjölskyldur sem misstu húsnæði sitt fóru verst út úr þessum manngerðu hamförum. Ef eitthvað réttlæti er til ætti að bæta þeim skaðann sem flestir eru sammála um að hefði mátt koma í veg fyrir. En nú, þegar fokið er í flest skattaskjól, hvað gera bændur þá ? Verður meiri vilji til að afnema verðtryggingu og treysta á að íslenska krónan spjari sig án hennar og með lægri útlánvöxtum en nú eru?


Hin nýja stétt

Erfitt er að finna hugtak yfir alla þá sem rann blóðið til skyldunnar vegna ástandsins sem skapaðist hér vikurnar tvær um síðustu mánaðarmót. Hápunkti þess ástands var náð í og eftir klukkutíma langan Kastljósþátt þann þriðja apríl.

Hundruðum og þúsundum saman "greip fólk til vopna", Skriffæri penslar og lyklaborð.Kröfuspjöld og hávaðamótmæli,köll og ræðuhöld.Fjölmiðlar af öllu öllu tagi voru gjörnýttir. Dagblöð,vikublöð, sjónvarp og síðast en ekki síst samskiptamiðlar enda ná þeir til flestra landsmanna og þar geta allir viðrað sína skoðun.

Hér er á ferðinni hin fjölmenna stétt hugvinnslufólks.Hún reyndar nær yfir alflestar vinnandi stéttir. Þessar vikur var hún yfirstéttin. Sú sem reynir með öllum tiltækum ráðum að hafa áhrif á aðra.Til að komast þar til metorða þarftu helst að geta snúið sem flestum á þitt band. Skoðanakannanir eru seinvirkar og sýna ekki rétta mynd í hita augnabliksins.

Þá er tími hugvinnslufólksins. Sumir þeirra eru launaðir og því atvinnumenn og eru auðvitað öðrum fremri.Aðrir vilja allt til vinna að geta pirrað og ergt sem flesta með skrifum sínum og svo er til fólk sem skrifar, knúið af eldi hugsjóna.    

Nú á tímum tækninýjunga og sjálfvirkni fer fiskvinnslufólki ört fækkandi.Öldin okkar er öld hugvinnslufólksins. Og gott ef ekki er,þá verða í þeirri stétt fljótlega þjóðin öll. 


Hryllingurinn í Miðausturlöndum - hvað er til ráða ?

Til viðbótar öllum þeim hörmungum og mannfórnum sem hafa átt sér stað í stríðshrjáðum Miðausturlöndum, sérstaklega í Írak,Sýrlandi og Líbýu auk Jemen og Afganistans,bætist nú við nýr vandi: Fólk að leita sér skjóls í löndum Evrópu. Hörmungarnar eru ólýsanlegar sem hafa dunið yfir þetta fólk sem þar býr og ekki síður þá sem hafa kosið að flýja heimalönd sín.

Hafi ástandið ekki verið nógu slæmt fyrir eru uppreisnaröflin ISIL,sem kenna sig við íslamskt ríki,langt komin að leggja innviði þessara landa endanlega í rúst. Ástandið er ekki tímabundið heldur viðvarandi næstu áratugina, því miður.Ógjörningur reynist að fá ISIL liða til að leggja niður vopn eða semja við þá. Mannvonskan og brjálæðar hugmyndir þeirra um Kalífaríki með stjórnarhætti í anda öfgafyllstu stafkróka Kóransins gerir þá að mestu hættu sem á Miðausturlöndum hefur dunið og jafnvel að Evrópu.Þau sem flýja löndin í Austur-Afriku eru að flýja harðstjórn heima fyrir og fátækt og flestir þeirra lenda í flóttamannabúðum á Ítalíu.

Milljónir flóttamanna frá Sýrlandi og Írak eru nú í flóttamannabúðum í Jórdaníu og Líbanon.Mannhafið sem er að flýja þessi átök, einfaldlega til að bjarga lífi sínu, er of mikið til að hægt sé að taka við þeim sem þátttakendum í þjóðfélögum Evrópu.

Friði þarf að koma á í löndunum en varla er það unnt nema með stigvaxandi hernaði og loksins ætlar Tyrkland að taka beinan þátt í hernaðinum við að ráða niðurlögum ÍSILs. Á meðan ættu Evrópulöndin sem ekki standa í hernaði að sjá sóma sinn að bjarga fólkinu.

Sækja það til Líbanon,Tyrklands eða Jordaníu og koma þeim fyrir í búðum, sem allt eins gætu verið hótel sem tekin eru á leigu af ESB og fleiri ríkjum sem eru aflögufær. Þar hefði fólkið dvalarleyfi og aðhlynningu þar til friður kemst á í heimalöndum þeirra.Við Íslendingar gætum aðstoðað eins og áður með björgunarstörfum,aðhlynningu,fjármögnun búðanna og ekki síst sent til búðanna matargjafir (makríl og annað fiskmeti) og föt.Vetur fer í hönd og þessu fólki þarf að bjarga núna en ekki bíða eftir að þau komi sér við illan leik sjálf og mest án alls skipulags og eftirlits þeirra sem við þeim taka,nauðugir viljugir.


Skæruverkföll

Í nokkrar vikur hafa staðið yfir verkföll lögfræðinga hjá skrifstofu sýslumanns sem og dýralækna. Þessar stéttir sem enginn þarf að efast um að hafi góð laun draga vagninn fyrir fjölmennar stéttir innan BHM.Þetta er nýung í launabaráttu fjöldans sem getur haldið sínum launum á meðan fáir vellaunaðir valda sem mestum skaða og þrýsta mikið á samningsaðila ríkisins.

Mótspil ríkisins gagnvart sínum viðsemjendum er að setja lög á verkföll og atvinnurekendur geta sett verkbann á sitt fólk þar sem fáir berjast fyrir heildina.Núverandi ríkisstjórn hefur gert sitt besta til koma efnahagslífinu á betri stað en það virðist ekki duga til að hafa áðurtalið launafólk ánægt. Manni finnst sem hugsunin hjá þeim, sem þegar eru með laun vel yfir meðallaunum, hugsi sem svo eða forusta þeirra. það væri fínt að fá hærrilaun en best væri að koma ríkistjórninni frá.Það stefnir í óefni vegna skæruverkfalla og ríkisstjórnin má til að taka í taumana.


Veðurfarsbreytingar hér og annars staðar

Það hefur sýnt sig að hugmyndir og kenningar um jafna hlýnun jarðar sem afleiðingu af myndun "gróðurhúsaþaks" af völdum brennslu jarðefnaeldneytis fær ekki staðist.þessir spádómar snerta okkur Íslendinga beint þar sem við höfum tekið upp allar íþyngjandi reglur og kostnaðarsamar sem hamla losun svonefndra gróðurhúsalofttegunda. Þetta gerum við þótt við séum hér úti við hafsauga og erum sem krækiber í ónefndum stað miðað við mannfjölda og mengun annars staðar á jarðarkringlunni.Vissulega hefur hlýnað á vissum stöðum,hiti staðið í stað mestan part eða kólnað sumstaðar.

En mér sýnist að við getum haft áhyggjur af veðurfars- breytingum. Síðasti vetur var með eindæmum vindasamur og stífar norðvestanáttir og norðaustanáttir voru ríkjandi.Ef kæling; hitastig x vindstig, væri notuð sem mælieining en ekki gráður á celcius og m/sek yrði nýliðinn vetur með þeim kaldari.

Samkvæmt meðfylgjandi hita- og hlýnunarkorti er greinilegt að mesta hlýnun hefur orðið á norðurslóðum og vesturströnd N- Ameríku sem eru dekkstu litirnir.Þarna virðist mengun og hlýnun frá mannmergðinni í Austur Asíu streyma til norðurs og breyta mestu um veðurfarið sem stendur okkur næst.Með aukinni úrkomu að vetri aukast síðan snjóalög sem bæta gráu ofan á svart í okkar veðurfari.Þetta kort og fleiri má finna á síðu NASA um meðaltal hitabreytinga á heimsvísu. 

nmaps


Ljóð í tilefni dagsins

Þótt ég eigi stutt að sækja skáldskapargáfuna hefur andinn sjaldan komið yfir mig. Þessi vísukorn þykir mér í lagi að birta hér á Mbl blogginu þótt ekki fari þau lengra. Kannski kom andinn svona í aðdraganda sjötugsafmælis. Kannski kemur hann ekki aftur fyrr en dregur að næsta stórafmæli! Ég efast ekki um að margir hugsa það sama og ég geri í kvæðinu en eru samt ekki að flíka því.

 Það er mín trú

 Er lítum við himinsins ljóma og stjörnur í víðáttugeymi.

 Lítt fáum skilið,alheimsins þróun og aldur.

 Sama er um lífið, svo fjölbreytt í jarðneskum heimi

 að svar, verður vart betra en,"þetta er einskonar galdur"

 

  Margt er þó reynt til að fylla í götin sem þarf.

  Þekkingin samt okkar er,sem hafsins örlítil alda.

  Metum öll frekar mannkynsins þúsalda arf.

  Almættið síst það á,fyrir tilgátuvísindi að gjalda.


Gerum Israel alþjóðlega hornreka


Ástandið í Palestínu er algjör hryllingur. Deilan sjálf á sér djúpar og flóknar rætur og hvorugur deiluaðila vill gefa eftir. Núna er verið að leggja líf hundruða þúsunda manna í rúst og Gazaborg er að verða rústir einar. Látnir og særðir skipta þúsundum og ástandið fer stöðugt versnandi. Gaza og reyndar Israel eru striðsátakasvæði líkt og eystri hluti Ukraínu. Þar var skotin niður farþegavél, líkast til vegna mistaka. Þar eru aðskilnaðarsinnar komnir með mjög hættuleg vopn í hendur. Einnig hefur rétt nýlega verið varað við að ISIS, hryðjuverkasamtök Islamista í Sýrlandi og Írak hafi komist yfir mjög hættuleg vopn í herstöð sem þeir náðu af Sýrlandsher. Í ljósi þessa er það undarlegt í meira lagi að flugfélög skuli leyfa flug yfir stríðsátakasvæði  hvar var sem þau eru í heiminum Stjórnendur flugfélaga eru vel vitandi um að vopnin geti verið höndum manna sem er nokk sama á hverju þau lenda. Þeir heyja blóðugt stríð og vita ekki hvort þeir lifa af daginn. En hvað er til bjargar saklausum borgurum og þá sérstaklega í Gaza? Ef það er eitthvað sem almenningur gæti haft áhrif á, utan að sniðganga vörur frá Israel, þá eru það flugfélögin og stjórnendur þeirra. Almenningur gæti krafist þess, sem ætti að vera augljóst; að þau hætti öllu flugi yfir átakasvæði. Hættu jafnvel alveg flugi til landa eins og Ísrael, einangra þannig landið þar til að þeir sjá að sér. Viðræður, samningar um vopnahlé og yfirlýsingar SÞ og  þjóða virðast ekki geta stöðva þetta hryllilega stríð. Og engin þjóð vill blanda sér beint í átökin sem eðlilegt er.

Rússneskur eldflaugapallur eða moska í Sogamýri

það hefur ekki lítið gengið á síðan oddviti Framsóknarflokksins kom með þá tillögu í kosningabaráttunni að afturkalla skyldi lóð undir trúarhús muslima, mosku, við Suðurlandsbraut á móts við enda Langholtsvegar.

Engu er líkara en að sameinaðir mykjudreifarar í netheimum  og í fjölmiðlum hafi keppst við að ata hana sem mestum auri í pólitískum tilgangi og kalla hana illum nöfnum. Ég Þekki marga muslima og veit að þeir eru upp til hópa gott fólk þó að innan um og saman við finnist ódæðismenn af verstu gerð eins og fréttir síðustu missera bera vott um.

Sjálfur er ég sammála Sveinbjörgu um að þetta er slæmur staður fyrir slíkt hús en það er engin yfirlýsing um hvort iðkendur trúarinnar er gott fólk eða slæmt. Út í þá sálma er óþarft að fara þegar lóðaúthlutanir eiga í hlut. Muslimar geta reist sína mosku á minna áberandi stað en við eiginlegt hlið Reykjavíkurborgar. Fram hjá henni eiga milljónir ferðamanna sem og landsmenn eftir að fara. Útlendingarnir eiga þá eftir að hugsa mér sér. "Það er aldeilis að muslimar hafa ítök í þessu landi". Það er kannski fulllangt seilst til jafnaðar, að ímynda sér að ef þarna stæði rússneskur eldflaugapallur þá mundi sama fólk hugsa. "Það er aldeilis að Rússarnir hafa hér ítök". Höldum þessu máli á plani umdeildrar lóðaúthlutunar, vöndum orðbragð yfirlýsinganna og finnum ásættanlega lausn.


Væri ekki rétt að veita Ómari Ragnarssyni fréttamanni heiðursdoktorsnafnbót ?

Á því leikur enginn vafi að Ómar Ragnarsson er fjölfróðasti, afkastamesti og fjölhæfasti Íslendingur vorra tíma. það var gæfa þjóðarinnar að hann skyldi hætta í lögfræði á sínum tíma og snúa sér að öðru. Svo fjölhæfur er hann að starfsheiti hans "fréttamaður" nær ekki yfir nema brotabrot af hans ferli. Ég er heldur ekki viss um hvort honum hafi verið veitt fálkaorðan. Ástæða þess er að manni finnst það svo sjálfsagt að það hafi verið gert, að maður lagði það ekki á minnið. Ekkert fann ég um þá veitingu nema grein í blaði þar sem greinarhöfundur taldi líklegt að Ómar hefði hlotið hana. Samt var höfundur ekki viss en fannst réttast að hann fengi orðuna aftur, væri slíkt hægt en nú fyrir annað framtak.

  Er ekki óhætt að heiðra manninn, sem enn er að þótt hylli undir starfslok, með doktorsnafnbót við íslenskan háskóla ? Getur einhver hugsað sér síðustu áratugina hér á landi án Ómars Ragnarssonar?  Fólk hefur fengið doktorsnafnbót af minna tilefni.


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband