1.9.2011 | 14:07
Er einhver leið fær til að trappa niður verðtrygginguna ?
Allt frá því að Íslendingar komust til bjargálna um miðja síðustu öld hefur hagstjórn ekki verið okkar sterkasta hlið. Kannski ekki von þar sem þjóðarbúskapurinn hefur gengið í rykkjum og þá í takt við aflabrögð til sjávar lengst af. Helsta ráðið var að fella gengið til að halda sjávarútveginum gangandi. Það varð síðan ávísun á minnkandi kaupmátt og aukna verðbólgu. Þegar verst lét fór hún yfir hundrað prósentin. Fólk hafði þó gott ráð við henni og gat fjárfest í húsnæði sem hækkaði í verði. Langflestir höfðu ráð á því að eignast þak yfir höfuðið og gátu jafnframt lifað þokkalegu lífi.
En þá heyrðust ramakvein úr horni. Sparifé sem þá var gjarnan geymt á bankabókum var við það að brenna upp. Þrátt fyrir það og þrátt fyrir að bankar þyrftu að afskrifa háar upphæðir hjá fyrirtækjum, sem komust ekki af í ólgusjó slæmrar hagstjórnar, var það óþekkt fyrirbæri að fjármálafyrirtæki yrðu gjaldþrota. Sem afleiðing af þessu varð verðtryggingin til. Smám saman varð það til þess að fátt stóð nú í veginum fyrir fjármálastofnunum, sem höfðu allar færst yfir til einkageirans og hrunadansinn hófst. Enda er verðbólga í bland við verðtryggingu einfaldlega himnasending fyrir þær stofnanir. Þar til allt fór yfir um á þeim bæ og landsmenn sitja enn uppi með stórfellt tjón.
Upptaka Evru er orðið að trúarbrögðum sem varla er hægt að ræða á rökrænan hátt. Hvorki hún né aðrar myntir eru heldur innan seilingar og hvað er þá til ráða ? Finnum ásættanlegan vísitölugrunn neysluverðs og höldum verðbólgunni í skefjum sem mest við megum. Greiðum sambærilega grunnvexti og aðrar þjóðir og byrjum á því að verðtryggja eingöngu hluta af höfuðstóli lána . Förum síðan frá 100 % verðtryggðu hlutfalli og niður í núll á t.d. þremur árum.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 16:59 | Facebook
Athugasemdir
Byrjum á að koma sem mestu af fjárfestingum lífeyrissjóðanna úr landi og lækkum lögboðna lámarksávöxtun sjóðanna í 1 til 1,5% raunvexti.
Stærð sjóðanna og 3,5% raunávöxtunarkrafa viðheldur háu vaxtastigi og verðbólgu upp á 3 til 5%.
Verðtrygging er ekkert annað nafn yfir vexti, verði verðtrygging felld niður þá koma bara breytilegir vextir í staði og þá með 1-2% óvissuálagi þar sem verðtryggingin eyðir óvissu um framtíðar verðbólgu.
Eggert Sigurbergsson, 1.9.2011 kl. 15:00
Já, efalaust er fleiri en ein leið að þessu. En er nægilegur hvati til að ná niður verðbólgu þegar fjármálastofnanir verða ekki fyrir beinu tjóni vegna hennar ?
Sigurður Ingólfsson, 1.9.2011 kl. 15:29
Ég get ekki sé að bankar verði fyrir einu einasta tjóni ef verðtryggingin verði felld niður enda koma bara í staðin breytilegir vextir með álagi.
Eggert Sigurbergsson, 1.9.2011 kl. 21:08
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.